| 
 
 
 Hestar hafa fylgt mannkyni allt frá
 árdögum menningar.
 Er talið að þeir
 hafi fyrirfundist á
 öllum meginlöndunum
 og er hesturinn álitinn
 það dýr Jarðar sem
 mestan þátt hefur átt í
 útbreiðslu siðmenningar
 um heimsbyggð alla
 sem bæði  fararskjóti
 og þarfasti þjónninn.
 
 Í draumhefð Íslendinga
 og margra þjóða eru
 hestar í draumi mjög
 kunnug draumtákn
 hjá bæði börnum og
 fullorðnum og skiptir þá
 litur hestsins miklu máli.
 Best er að dreyma
 hvítan hest eða gráan
 - fyrir gæfu og andlegu gengi -
 en öllu verra að dreyma
 svartan eða bleikan
 - fyrir erfiðleikum,
 svartsýni eða dauða -.
 
 Maður og hestur bindast
 oft varanlegum tryggðarböndum
 eins og lýst er í eftirfarandi
 lausavísu Páls Ólafssonar:
 
 
 Aldrei sofna ég sætan blund
 svo mig ekki dreymi
 að litli Rauður litla stund
 lifi í þessum heimi.
 
 
 Þekktustu dýr sem
 draumtákn eru ekki
 einungis hestar, heldur
 líka húsdýr eins og
 hundar og kettir.
 Margar hugmyndir um
 túlkun hafa komið fram.
 Í þjóðtrúnni eru það helst
 eðliseinkenni hvers dýrs
 fyrir sig sem litið er til:
 skerpa, þróttur og
 úthald hestsins,
 tryggð og hollusta
 hundsins, lipurð
 og lævísi kattarins.
 
 Í þessum sama anda
 ritaði Jung um erkitýpurnar
 í sammannlegri undirvitund
 en hestur, hundur og köttur
 voru meðal 20 helstu
 erkitýpanna að hans mati.
 
 Hestur sem draumtákn
 getur staðið fyrir frelsi, kraft,
 vilja, þol, hreyfingu,
 framfarir, ferð, takmark,
 frumeðli, tilfinningar og þrár.
 
 Huganum er gjarnan
 líkt við óbeislaðan hest;
 huganum hættir til
 að fara út um víðan völl.
 Eins og með kraft hestsins,
 þarf að hemja hann og beisla.
 
 Öll draumtákn eru margræð
 og eiga sér fleiri hliðar:
 óbeislaður kraftur getur unnið
 bæði manni og dýri tjón.
 Hið sama má segja um
 ofuráherslu á hið beislaða.
 .
 Seinni tíma draumfræðingar
 leggja áherslu á samhengi
 draumsins og þá tilfinningu
 sem fylgir honum og tengslin
 sem dreymandinn hefur
 við tiltekin dýr í lifanda lífi.
 Og þá samsvörun
 við líf og líðan sem
 dreymandi getur fundið.
 
 Dreymi ykkur vel
 á ári Hestsins!
 
 
 *
 
 
 |