Hringrás lífs og dauða,
hnignunar og upprisu,
birtist vel í lífsferli trjáa.
Árhringir þeirra sýna
rás tímans; sum tré eru
hundruðir ára gömul.
Aldnar og vitrar lífverur
og geta um margt vitnað.
Tré hafa líka ferðast víða
eins og sjá má af sögu
grátvíðisins - weeping willow -
sem barst eftir þeirri frægu
verslunarleið, Silkileiðinni,
til Miðausturlanda og Evrópu
frá Austurlöndum fjær.
Grátvíðirinn sem
óx villtur í Jórdaniu,
tengist gjarnan sögnum
af Kristi og píslum hans
svo og lærisveini hans,
Jósef af Arímaþeu.
Sem lagði meistara sinn
eftir krossfestinguna
til hinstu hvílu í tilhöggna
gröf umvafinn fínofnum
líkklæðum. Hvaðan
Kristur reis upp til himna
á fyrsta degi Páska.
Hver hann var þessi
dularfulli lærisveinn Krists,
er mönnum enn hulið.
En hann var álitinn
í ættboga meistarans.
Ríkur kaupmaður í
æðsta ráði Gyðinga
sem efnast hafði á
verslun með málma,
mögulega frá Englandi.
Vitað er að merkar kopar-
námur voru (og eru)
í Cornwall og fágætar
blýnámur í Somerset.
Jósef er líka kenndur við
hinn blómstrandi staf
lífsins í eiginlegri og
óeiginlegri merkingu.
Stafinn - upphaflega
talinn sproti úr
þyrnikórónu Krists -,
hafði hann með sér
til Somerset á fyrstu öld
til að sinna verslun og
boða kristni á Englandi
og stofna fyrsta klaustrið
á fögrum grundum
Somerset í hinni fornu
verslunarborg, Glastonbury.
Þegar göngustafur Jósefs
snart enska moldu, óx þar
upp blómstrandi þyrnirunni
í nágrenni hinnar sígrænu og
dulmögnuðu klettahæðar
Tor sem stundum er
nefnd Hjarta Englands
vegna landfræðilegrar
og kosmískrar legu;
svokallaðra leylína,
og andlegs mikilvægis.
(En Glastonbury Tor er ýmist
talin úr leir eða jafnvel gleri!
Var hún kannski áður eyjan
Avalon, hlið milli heima?
Vitað er að allt fram á 4. öld,
var Tor umlukin vatni).
Líta má á Jósef sem staf lífsins
í merkingunni að vera
fyrsti meiður göfugs ættartrés,
eða eins og sagnir herma,
ættfaðir Arthúrs konungs.
Og jafnframt sá sem kom
með hinn heilaga kaleik
- hinn helga Gral -
til Bretlands og gróf í Tor;
tók þá að spretta fram
brunnvatn sem lýsir af
og gengur undir nafninu
Kaleiksbrunnur - Chalice Well.
Margir upplifa mikið
skírdreymi - lucid dreaming -
í nágrenni Tor og Chalice Well.
Enn aðrir nota sefjun líkt
og í musterunum til forna,
til drauma og að tengjast
betur heilun og visku Jarðar
og þeim leyndardómum
sem hún geymir á
þessum merku slóðum.
Kaleikurinn var notaður
við helga kvöldmáltíð
Skírdagsins og síðar til
að safna blóði og svita
Krists við krossfestinguna.
Kaleikurinn - Gralinn -
var það dýrmæti sem
Arthúr konungur og
riddarar hringborðsins
leituðu svo ákaft.
Gral hins helga blóðs...
Já, margt er á huldu með
þennan merka lærisvein.
Og ef til vill hafði Kristur
sjálfur verið með Jósef í
ferðum á Bretlandseyjum
sem barn og unglingur?
Um þann möguleika orti
William Blake, (1757-1827),
í frægu ljóði sínu Jerúsalem:
And did those feet in ancient time,
walk upon England´s mountain green?
And was the holy lamb of God
On England´s pleasant pastures seen?
*
|