Þar drýpur smjör af hverju strái,
var gjarnan haft á orði,
þegar vitnað var til
gjöfulla landkosta
eins og heimfæra má
á búsæld margra
íslenskra sveita sem
vissulega hafa átt
sína erfiðu tíma líka.
Draumar um bætta tíð
í krafti nýrrar þekkingar
þegar syrtir í álinn
og sund lokast, eru
góð dæmi um hreyfiafl
nýrra tíma og þróunar:
draumar rjómabústýru.
Byggðir við Andakíl og
á Hvítarvöllum, marka
upphaf að menntun
íslenskra kvenna, sem
í fyrstu laut að því að
mennta rjómabústýrur
til þess að hafa veg og
vanda af rjómabúum,
m.ö.o. mjólkurbúum,
og standa fyrir þeim
víðs vegar um landið.
Smjör var lífsnauðsyn og
síðar líka útflutningsvara;
það skipti máli að faglega
væri staðið að því að
strokka smjör og rjóma.
Rjómabústýrur hlutu
menntun í fyrsta
skólanum sem bauð upp
á fagmenntun fyrir konur
hér á landi, en það
var Mjólkurskólinn á
Hvanneyri og síðar á
Hvítárvöllum sem
settur var á laggirnar
við aldahvörf 20. aldar
en alls menntuðust
þaðan um 180 stúlkur.
Hann starfaði í tæpa tvo
áratugi og bauð upp á bæði
bóklegt og verklegt nám;
stór áfangi í jafnréttisbaráttu.
Skólinn og nemendur
hans höfðu veruleg áhrif
á eflingu verkþekkingar
í matvælaiðnaði og á
breytta búskaparhætti og
framvindu landbúnaðar
í byggðum landsins.
Kýrin - fóstra mannkyns -
var grunnurinn að
hagsæld landans;
öldum saman lifðu
Íslendingar á
afurðum hennar.
Er nú talið að allt að
60% af fæðu þeirra
hafi komið frá
kúm og sauðum.
En hirðing mjólkurkúa
og vinnsla mjólkur,
var löngum talin
kvennaverk, um
það vitna rjómabúin.
Samkvæmt þjóðtrúnni,
þótti það vita á gott
að dreyma smjör og
að strokka smjör var
talið fyrir góðu gengi,
efnalegum bata
og metorðum.
Nýverið var gefin út
af bókaforlaginu Opnu
bókin Konur breyttu
búháttum um Mjólkurskólann.
Höfundur hennar er
Bjarni Guðmundsson,
forstöðumaður Landbúnaðar-
safns Íslands á Hvanneyri.
Óhætt er að segja að hér
sé á ferðinni merkis
heimild um ómissandi
kafla í atvinnusögu okkar
en ekki síður minnisvarði
um starfsmennt kvenna
sem verið hefur hljótt um
líkt og svo oft um starf
kvenna til heilla og hagsbóta.
Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,
brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóga.
(Hannes Hafstein, 1861-1922;
úr Aldamótin).
*
|