Við lifum á gervihnattaöld:
tímar tækni og þróunar
á jörðu og í himingeimi,
alnets og vaxandi gervigreindar.
Tímar þar sem gömul og
gróin gildi, trúarhugmyndir
og hefðbundin trúarbrögð,
eru í uppstokkun og endurnýjun.
Fólki sem telur sig meira
andlegt - spiritual - en trúað
- religious - eða jafnvel trúlaust,
fjölgar í velmegunarríkjum.
Slík deigla getur vonandi
af sér nýja sýn og raunsæi
á menn og málefni, hvað þá
á guðseindina...
En að sama skapi vex
bókstafshyggjutrú ásmegin
víða um heim þar sem
ástandið er ótryggara
varðandi afkomu og lífskjör.
Samfélögin verða æ
veraldlegri, og alls staðar
vex harðlínuöflum stjórnmála
fiskur um hrygg.
Hvert sem litið er, eykst
svokallaður vistkvíði,
eða ecoanxiety, í kjölfar
hamfarahlýnunar sem sumir
telja af mannavöldum en
margir harðlínuþenkjandi,
neita alfarið að maðurinn,
herra Jarðar, eigi þar
nokkurn hlut að máli
jafnvel þó staðreyndir
daganna séu himinhrópandi.
Vistkvíðinn beinist að framtíð
lífs og vist okkar á plánetunni
hvar heilu vistkerfin eru við
það að þurrkast út vegna
ofveiða, ofnýtingar og
mengunar sem hefur ekki
áður séð stað í sögunni.
Tegundadauðinn á örfáum
áratugum er með ólíkindum.
Lífvænleikanum er ógnað
og hefur þessi hningun orðið
meiri sl. 200 ár en öll
árþúsundin þar á undan.
Og á sama tíma eru víða
við stjórnvölinn einstaklingar
sem myndu skora hátt á
mælingum á siðblindu og
andfélagsleika: raunar ótrúlega
víða um heimsbyggð alla,
og greinilega farvegur fyrir
slík öfl lyga, falsvona og ofríkis.
Að finna von um framtíð
í slíkri heimsmynd,
fer að vera erfiðleikum
bundið, að sjá til framtíðar
og láta ekki yfirþyrmandi
ógnir nútímans taka yfir.
En líkt og Náttúran, á
maðurinn aðgang að innri
styrk og sveigju sem gerir
vonandi kleift að lifa af
í umróti aldarfarsins
og feta nýjar leiðir.
(Því miður eru lausnirnar
til en bara ekki unnið
eftir þeim).
Draumar og hæfileikinn
til að endurskapa reynslu
í draumi og eignast nýja
sýn og von, verður seint
frá okkur tekinn. Eins er
með hæfnina til að undrast
og finna til lotningar
yfir sköpunarverkinu sem
Albert Einstein taldi einn
sterkasta þátt mennskunnar.
Um bæði drauma og
lotningu gildir það sama:
við þurfum að hlúa að
þessum vöggugjöfum og
muna að rækta það
sem okkur er gefið
og okkur er falið.
Við þurfum að hafa fyrir
því að anda og vera til.
Eða, eins og Jóhannes
Sv. Kjarval, (1885-1972),
orðaði svo vel:
Það er heilmikið fyrirtæki
að vera manneskja.
*
|