Miklu skiptir að tapa sér ekki
í kapphlaupinu--kauphlaupinu--
þessi dægrin og fara á hvolf.
Passa upp á svefninn á þessum
myrkustu sólarhringum ársins,
dreyma um heima og geima og
ná djúpum, endurnærandi hvíldum.
En vitað er að í kjölfar draumsvefnsins
--REM--, fer heilinn yfir í stuttan
og hægan bylgjugang sem hjálpar
til við að ferla upplýsingar úr
skammtímaminni yfir í langtímaminni,
og vinna úr áreitum daganna.
Koma á jafnvægri hrynjandi og ró.
Tengsl svefns og heilsu sýna,
að það að ganga of seint til náða
--of langur skjátími að kvöldi,
kaffidrykkja og áfengisneysla--,
eru þættir sem leitt geta til
offitu, sykursýki, áhættu á
þunglyndi, óyndi og kvíða.
Almennt sefur fólk of stutt,
og sýna tölur að yfir 30 prósent
fullorðinna sefur almennt
ekki þá 7 til 9 tíma sem taldir
eru nauðsynlegir til eðlilegrar
enduhleðslu líkama og sálar.
Ónógur djúpsvefn kemur niður
á minni og námsgetu og hæfninni
til að taka ákvarðanir í daglegu lífi.
Og eykur hættu á ótímabærri öldrun,
hrörnun minnisgetu og daglegri færni.
Besta gjöfin í amstri dægranna,
er að sofa vel og endurnýja þrekið,
og heilsa nýjum degi fagnandi.
Bragi Valdimar Skúlason yrkir
eftirminnilega um þann gamla
sið, að heilsa deginum:
Það gleymist oft í amstri langra daga
að öðlast hugarró og sálarfrið.
Hjarta sitt og hugsun ná að aga
og heilsa deginum, að gömlum sið.
Heppnist þetta vel, er segin saga
að sannur tónn mun opna lokuð hlið.
Við bætum óðar það sem þarf að laga,
því þannig batnar heimurinn - og við.
*
|