Forsíđa   

 31.12.2010
 Gamlársdagur: Perceval og kúnstin ađ spyrja réttra spurninga



Um leið og Skuggsjá þakkar
árið sem er að líða,
minnum við á þá visku
kennda við Sókrates og raunar 
ýmsa spekinga fyrr og síðar,
að spyrja réttra spurninga
til þess að leita réttra svara,
öðlast hlutdeild í sannleika.
En klaufska er trúlega
órjúfanlegur hluti mennskunnar.
Kannski hin einlæga
viðleitni skipti mestu...

Riddarasögur miðaldabókmennta
endurspegla gjarnan þessa mítu
og eru sumar hverjar draumkenndar,
virðast að hluta gerast í leiðslu
á mörkum draums og veru.
Veita margar innsýn í sagnaheim
Artúrs konungs og kappa hans,
segja frá Fiskikonunginum
og dularfullu hlutskipti fjölskyldu hans;
fela í sér leitina að Gralinu helga.

Segja oftar en ekki frá hetjunni ungu,
sem heldur óframfærin
og fákunnandi út í lífið
- kann ekki að spyrja réttu spurninganna -
en öðlast þó riddaratign
í heimóttaskap og mistökum sínum
sökum göfgi hreins hjartalags.

Nú hefur sagan af riddaranum Perceval
- Perceval ou le Comte du Graal -
verið þýdd
og gefin út af
Hinu íslenska Bókmenntafélagi.
En vitað er um alls 5 mismunandi
frásagnir af Perceval eftir
jafnmarga ólíka höfunda.
Er ein sú þekktari eftir
riddarann og sagnaskáldið
Wolfram von Eschenbach
rituð á miðaldaháþýsku
en á henni byggði forstjóri Skuggsjár
doktorsverkefni sitt  á sviði
sálmálvísinda og merkingarfræða.
Meira um það síðar.

Þessi þýðing nú er byggð
á upphaflegu Perceval sögunni
eftir fremsta miðaldahöfund Frakka,
Chrétien De Troyes frá 12. öld
sem lauk þó aldrei alveg við söguna.
Einstaklega lipur, raunar leikandi létt
þýðing Ásdísar R. Magnúsdóttur,
prófessors í frönsku við Háskóla Íslands.
Er af henni mikill fengur:



Ó, Perceval!
Gæfan er sköllótt að aftan
en hærð að framan
og bölvaður sé sá sem heilsar þér
eða óskar þér góðs í bænum sínum
vegna þess að þú greipst ekki Gæfuna
þegar þú hafðir tækifæri til!
Þú fórst til Fiskikonungsins
og sást spjótið sem blæðir
og þá áttir þú svo erfitt
að opna á þér munninn og tala
að þú gast ekki spurt af hverju
blóðdropinn rennur
af hvítum spjótsoddinum.
Og gralinn sástu en spurðir ekki
fyrir hvaða hefðarmenn
hann væri borinn.
Mikið er sá ólánssamur
sem fær besta tækifærið
upp í hendurnar en bíður
samt eftir því að fá annað betra.


(Perceval eða Sagan um gralinn, 2010, 148).

'





Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245  246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA