Að sjá hið fagra í hinu smáa, og
taka eftir hélublómunum, er gerlegt,
sama hvernig allt veltist og snýst
í óblíðri veröld og hamfaratíð ársins,
sem er að líða. Að horfa og hlusta á
Náttúruna, hefur reynst mörgum
svölun á erfiðum kórónuveirutímum.
Um slík tengsl við náttúruna, yrkir Erla,
austfirska skáldkonan og 9 barna móðirin,
sem orti við dagleg störf á mannmörgu
sveitaheimili í Vopnafirði, á síðustu öld.
Eitt barna hennar var Þorsteinn Valdimarsson,
skáld og kennari.
Erla var skáldanafn en hún hét raunar
Guðfinna Þorsteinsdóttir, (1891-1972),
og var ættuð úr Eiðaþinghá, komin af merkum
sagnameisturum og orðsins jöfrum;
Sigfús Sigfússon, bóndi á Skjögrastöðum í
Vallahreppi hvar Erla fæddist, afi hennar,
safnaði m.a. þjóðsögum, sem lesa má
í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Þessi einstaka skáldkona þýddi líka mörg
merkisverk úr ensku og Norðurlandamálunum,
og er hin undurfagra bók, Slagur Vindhörpunnar,
eftir færeyska skáldið William Heinesen, eitt merkra
þýðingarverka hennar og kom út hér á landi, árið 1956.
Hvernig Erlu tókst að afkasta öllu þessu í erli daganna,
ber glöggt vitni magnaðrar konu. Hún safnaði
ljóðunum sínum árum saman og orðin vel
fullorðin þegar fyrstu ljóðin tóku að birtast.
En fallegt og glæsilegt ritsafn verka hennar,
kom út árið 2013, útgefið af Félagi austfirskra
ljóðaunnenda.
Erla yrkir um náttúruna og birtuna í lífinu og
misjafnt hlutskipti mannfólksins í fyrstu bók sinni,
Hélublóm, frá árinu 1937. Mestu skiptir,
segir hún, að mæta aðstæðum með jákvæðu
hugarfari, þrautseigju og von í brjósti.
Treysta innri orkulindum í manni og alheimi.
Verum þess minnug nú þegar við kveðjum
hamfaraárið 2020, sem við vonandi lærum af.
Vertu ávallt hress í huga
hvað sem kann að mæta þér.
Lát ei sorg né böl þig buga.
Baggi margra þungur er.
Treystu því, að þér á herðar
þyngri byrði ei varpað er
en þú hafir afl að bera.
Orka blundar næg í þér.
#
|