Aðfangadagshelgi svífur yfir
spegilsléttan hafflöt Dýrafjarðar
með tignarlegan fjallahringinn
allt um kring undir rósfingruðu
himinhvolfinu við sólarupprás.
Þegar Þingeyri vaknar af svefni
og draumum nætur...
Spakar endur njóta lífsins við
flæðarmál og hrafnar sýna lipra
flugtakta út um allan fjörð.
Óhætt að segja að Ljósmögn
þessa heims og annars,
boði komu Jóla, og upplýsi
Náttúru og vitund vora.
Gefi lífinu óræða merkingu.
Dýrð...
Vitundin er ólíkindatól; já, hvað
vitum við svo sem?
Nema að Jólin eru tíminn til þess
að endurnýja sambandið við
hin innri gildi og tengslin
við okkur sjálf og aðra menn.
Og Náttúruna.
Ljósið:
Lykillinn að andlegum vexti,
er að meðtaka æðri svið
vitundar inn í vakandi
athygli vora, varð spekingnum
Laó Tse að orði fyrir ár-
hundruðum austur í Kína.
Og nokkrum árhundruðum
síðar í Betlehem, var
Ljós heimsins okkur fætt.
Megi ljós Jóla veita dreymendum,
ungum sem öldnum, nær sem fjær,
gleði og frið og endurnýjaða von í hjarta.
#
|