Haustjafndægur gengin í garð
á rökum og stilltum morgni í
Norðrinu; í hádeginu brýst
sólin fram og gleður sál og sinni;
seinni parturinn lofar góðu.
Svo byrjar skáldkonan
María Sigmundsdóttir (1958- ),
Haustljóð sitt:
Haustið er komið í hundrað þúsund litum
með heiðbláa daga, jarðneska dýrð.
Munu draumar okkar breytast
og taka lit árstíðarinnar eða
haldast þeir með svipuð þemu
frá einni árstíð til þeirra næstu?
Óvitað, en sannarlega verðugt
rannsóknarefni.
Talið er að frá 8-10 ára aldri,
dreymi okkur a.m.k. 3 til 6
drauma á nóttu.
En draumaminnið er brigðult:
trúlega gleymast um 90-95%
drauma fljótlega eftir að við
vöknum og förum fram úr.
En vissulega er hægt að þjálfa
draumaminnið, s.s. að skrifa
draumana strax niður og/eða
spegla þá í samtali við aðra.
Talið er, að draumar breytist
að vissu marki með aldri og þá
að einhverju leyti út frá þeim
þroskaverkefnum sem fylgja
hverju æviskeiði, þ.e. reynslu
vökunnar, heilsu og líðan.
Aldraða dreymir t.a.m. oftar
endurtekna drauma sem hafa
fylgt þeim í gegnum ævina.
Með auknum tíma og ró
ævikvöldsins, geta þeir
nú skoðað bæði vöku-og
draumreynslu sína og þá
lærdóma sem reynslan
hefur gefið og hvað endurteknir
draumar hafa hugsanlega
verið að segja þeim eða
leiðbeina með.
Þá er og spurning hvort
draumum í lit, fækki
með auknum aldri miðað
við yngri dreymendur og
spennandi að sjá niðurstöður
slíkra rannsókna síðar.
Helstu þemu i draumum
virðast haldast nokkuð stöðug
í gegnum æviskeiðin og
hefur verið skipt í þrjá flokka
sem snerta úrvinnslu á skynjun,
hugsun og tilfinningum vökureynslu.
En vert er að taka fram, að þessi
nálgun á eðli drauma, er ekki
sú eina. Óefað eigum við enn eftir
að uppgötva margt fleira um eðli,
inntak og tilgang draumlífsins
en svo að allt megi tengja reynslu
okkar yfir dagana og úrvinnlu á
hugmynda-og skynheimi vökunnar.
Ekki eru sem sé allir draumar
endilega úrvinnsludraumar:
Draumar sem snerta tengsl
okkar við aðra og endurspegla
innri ólgu og togstreitu.
Dreymandinn skynjar hættu
og ógn, finnst hann vera að detta;
vera eltur eða ráðist á.
Draumar sem snerta eigin líkama
og kynvitund. Dreymanda
finnst hann vera að fljúga;
finna peninga eða borða eitthvað gott.
Draumar sem snerta árangur og
frammistöðu í félagslegu tilliti
og áhyggjur þar af.
Dreymanda finnst hann vera
nakinn; hann fellur á prófi;
missir tönn eða mætir of seint.
Langtímarannsókn sem birt var
í Journal of Psychology 2004 eftir
Michael Schredl, Petra Ciric ofl.
sýnir að 55 helstu draumþemu
fólks á tímabilinu 1956 til 2000,
voru í meginatriðum svipuð.
En þemum fjölgaði þegar á leið
tímabilið sem snertu nútíma-
lífsháttu og tækni, tæki og tól.
Sem dæmi varð aukning á
tíðni flugdrauma, dreymanda
fannst hann sjálfur fljúga eða
vera í flugvél. Rannsakendur
tengja þessa aukningu við
þá staðreynd að veruleg
fjölgun varð á flugi sem
fararmáta á sama tímabili
hjá fólki um heim allan.
Langtímaminnið hefur meiri
ítök í draumlífinu en skammtíma-
minni og bent hefur verið á að ný
tækni, tól og tæki eins og sími
og tölva virðast síast hægar inn
sem algeng draumþemu og tákn
en fræðimenn áttu von á.
Af 55 helstu draumþemunum,
má nefna eftirfarandi 10 algeng:
vera að læra í skóla;
falla á prófi; vera eltur; detta;
fljúga; missa tennur; sjá skordýr;
vera frosinn af hræðslu;
sjá lifandi persónu sem látna
eða öfugt; synda.
Draumfræðingar leggja áherslu
á að hægt sé að læra á drauma
sem endurspegla óttaþemu
vökunnar sem oft eru martraðakennd,
með því að skoða slíka drauma
og læra að mæta þeim án þess
að þeir slái dreymandann út af
laginu. Þróa seiglu og bjartsýni
sem vinnur gegn hamfarahugsun
og tilhneigingu til skautunar,
að sjá bara svart eða hvítt.
Ljóst er að reynsla vökunnar,
speglast í draumum næturinnar.
Er í þessu samhengi, litið svo á
að draumar stuðli að auknu jafnvægi
í sálarlífinu, ferli upplýsingar,
endurraði reynslu í minni og
hjálpi dreymanda að sjá nýjar
lausnir; læra.
Talið er að það taki allt að 7 daga
að ferla upplýsingar úr vökunni
í draumum nætur þannig að
eðlileg heildun eigi sér stað
við þekkingu sem fyrir er.
Er mælt með að dreymendur
á hvaða aldri sem er, hugi vel að
undirbúningi fyrir svefninn og eigi
góða stund, s.s. án krefjandi áhorfs,
áður en gengið er til náða.
Það sem við störfum og sýslum
við, á sér greiða leið inn í draumana.
Dæmi þar um er að tónlistarfólk
dreymir tvisvar sinnum fleiri tóndrauma,
að talið er, en þeir sem ekki starfa
við tónlist. Þetta eru frekar draumar
frá gömlum tíma þegar þeir voru að
mennta sig í tónlistinni en nútíma
hlustun og spilun. Dreymandi heyrir
jafnvel áður óheyrða tónlist sem
bendir til hins skapandi máttar
draumlífsins enda hafa margir
listamenn í gegnum tíðina
sagt frá lögum, textum og myndum
sem þeir hafa fyrst heyrt eða
séð í draumum sínum.
Hið sama má segja um skapandi
drauma vísinda-og uppfinningamanna.
Dreymi vel á komandi
haustnáttum!
#
|