Forsíđa   

 05.11.2011
 Stjörnu-Oddi, öđru nafni Dagfinnur: stjarnvísi og draumvísi



Stjörnu-Oddi frá
Múla í Aðaldal
- Oddi Helgason -
var best þekkti
raunvísindamaður
Íslendinga á miðöldum,
uppi á fyrri hluta 12. aldar.
Er hin fræga Odda tala
við hann kennd
sem segir til um
gang sólar og tímatal
á Norðurslóð
og sæfarendur sigldu
eftir yfir úthöfin;
gátu vitað í hvaða átt
dagur kom upp og settist.

Segir frá Odda í
Íslendingaþættinum
Stjörnu-Odda draumur
sem m.a. hefur
varðveist í Rímbeglu
og Hauksbók.

Vísindi Odda byggðust
á stjörnuathugunum
í Múla og úti í Flatey
hvar fjallahringurinn skóp
náttúrulegan mælikvarða
á hæð sólar við uppkomu,
í hádegisstað og sólsetur,
og göngu tungls.

Reiknaði Oddi út
af mikilli nákvæmni
hvenær sólhvörf
verða á sumri og vetri
og stefnuna til
dögunar og dagseturs
og hvernig hún
breytist yfir árið.

En vísindi Odda byggðu
líka á ferðum hans
á draumþing mörg.
Sótti hann sér þekkingu
í draumkenndri
leiðslu svefnsins
og ferðaðist um
lendur draumheima
sem hliðarsjálfið/
draumsjálfið Dagfinnur.

Í Stjörnu-Odda draumi
er sagt frá
leiðsluferðum
Odda/Dagfinns
á vit konunga
og fyrirmenna
á Gautlöndum
í Svíþjóð.

Ber frásagan
nokkurn keim af
fornaldarsögum
Norðurlanda,
s.s. Völsungasögu
og Örvar-Odds sögu
eins og hvað varðar
valdatafl höfðingja,
hetjur og berserki,
ráðabrugg og fjölkynngi,
skjaldmeyjar og valkyrjur.

Er Dagfinnur þar
ýmist skáld,
liðsmaður konungs og
skipstjórnarmaður 
eða bónbiðill
konungsdóttur:


Þar var í ferð
með konungi
Dagfinnur skáld.
En í ofangöngunni
til skipanna
þá varð sá atburður
er geta verður,
þó að lítils
vægis þyki vera,

að losnaði skóþvengur
Dagfinns skálds.
Og síðan bindur
hann þvenginn
og þá vaknaði hann
og var þá Oddi,
sem von var,
en eigi Dagfinnur.

Eftir þennan fyrirburð
gekk Oddi út
og hugði að stjörnum
sem hann átti
venju til
jafnan
er hann
sá út um nætur
þá er sjá mátti stjörnur.


Nú í vetur er unnið
að heildarútgáfu
á draumaverkefnum
Skuggsjár í Eyþingi
síðustu misserin
á sviði vísinda-og
menningarmiðlunar.
Um er að ræða
verkefni eins og
Draumar í þjóðtrú
og þjóðmenningu;
Draumar á safni
;
Á draumaslóð:
fornsögur og draumar;
Drauma Jói og barnadraumar;
Lesið í náttúru og drauma:
draumar sjómanna og bænda,
og Á tali við ána.

Til heiðurs Odda og
fræða hans, bæði á sviði
raunvísinda og
sálfræða/drauma,
hefur væntanleg bók
hlotið nafnið
Dagfinnur á draumþingi.


'






Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227  228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 264 265 266 267 268 269 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA