Kannski Íslendingar
séu eðlisskyldir
jarðeplum - kartöflum -
eins og haldið er fram
í nýjustu bók
hins Stirlingmenntaða
bókmenntafræðings
og rithöfundar
Sölva Björns Sigurðssonar,
Gestakomur í Sauðlauksdal
(eður hvernig skal sína þjóð upp reisa úr öskustó),
sem bókaútgáfan
Sögur gefur út:
Enginn skapnaður er skyldari Íslendingum en kartaflan, eitt pínulítið piparkorn sem bíður þess að teygja faðminn móti albreiðum himni.
Þrátt fyrir ýmsa óáran
til sjávar og sveita,
eiga hin harðgeru
jarðepli sér lífsvon í
hrjóstrugum jarðvegi
hvar stjörnurnar hafa ekki við að lýsa
þann þunga skugga
sem hvílir yfir flestu
á norðurhjara.
Óhætt er að segja
að bók Sölva um
séra Björn Halldórsson
í Sauðlauksdal og
þá bjargföstu trú
er Björn hafði á
kartöfluræktun
og hinu indæla
gnægtaborði
jarðeplanna til
að leysa landsins
hörmung á ofanverðri
18. öld þegar ýmis
harðindi höfðu leikið
land og þjóð grátt,
eigi fullt erindi inn í
umræðuna um
breytt gildismat
þjóðar eftir Hrun.
Þess utan er bókin
fádæma vel skrifuð;
ekki laust við hún minni
á franska ljóðrænu
og innileika í anda
Litla prinsins
þegar Björn talar
(raunar skrifar) til
Eggerts Ólafssonar
mágs síns, sem á
öll sín bein í hafdjúpinu
og fegurstan
anda á himninum.
Líkt og jarðeplin,
vaxa draumar
inn í verundina
við ysta haf og
gæða hana lífi og
þori svo lifað megi:
En allt er til í draumi, Eggert minn, allt býr í draumi. Ég hef nú kúvelst hér á túninu með kartöflu á stærð við lítinn kvenmann, byggt mér jarðeplaskúta á stærð við Svefneyjar og nærst á mínum eigin bústað í ilmríkustu göngum þessa heims - allt í draumi. Nú er minn draumur að fá sveitunga mína og stærsta landsins fólk til að hætta að treysta á þrámeti sem sína einu fæðu.
(Sölvi Björn Sigurðsson,
Gestakomur í Sauðlauksdal,
2011, 44).
'
|