Nú er vetur genginn
í garð á Norðurslóð
og fannst vel fyrir
honum í liðinni viku
með frosthörku uppá
10-13 stig í Eyjafirði
að ótöldum jarðskjálftum
í Eyjafjarðarálum.
Á fullu tungli dagsins
verða tímamót í náttúru,
óhjákvæmilegur fylgifiskur
eru hinar þöglu myrkur-
nætur gróandans í
endalausri hringrás árstíða.
Í þessum hverfingum
þegar dimman verður
ljósinu yfirsterkari
verða skil vöku
og draums óljósari.
Hæðin heillandi
Hampstead Heath í
norðvesturhluta Lundúna
var nefnd hér á vefsetrinu
á Haustsólhvörfum.
En í Hampstead Village
við rætur hæðarinnar
bjó lengi eitt þekktasta
ljóðskáld Breta bæði
fyrr og nú, John B. Keats.
Keats var heimspekilegt
skáld sem velti upp
spurningum um
hringrás lífs og dauða
og mörkum ímyndunar
og veruleika jafnframt
því að íhuga gátu svefns
og (ó)raunveru draumlífs.
Skrifaði um þessar
vangaveltur sínar í
ljóðabálkum á borð við
Sleep and Poetry og
Eve of St. Agnes.
Ef til vill er hann þó
þekktari fyrir þessar
vangaveltur í ljóðabálk
sínum Óður næturgalans
- Ode to a nightingale -
skrifaður 1819 eftir göngu
á Hampstead Heath,
hafandi hlustað þar á
næturgala í skógarrjóðri
hefja upp fagra raust sína.
Í huga Keats ávinnur
næturgalinn sér ódauðleika
með söng sínum, allt annað
er hverfult og því lýkur.
Verður þó að viðurkenna
að myrkur dauðinn og
þjáningin sem hann
veldur sé órjúfanlega
bundið bæði lífi og ljósi.
Er unnt að öðlast sátt um
forgengileika dauðans?
Eða er allt ef til vill
einn langur draumur?
... tender is the night,
And haply the Queen-Moon is on her throne,
Cluster ' d around by all her starry Fays;
But here there is no light,
Save what from heaven is with the breezes blown
Through verdurous glooms and winding mossy ways.
----------
Past the meadows, over the still stream,
Up the hill-side; and now ' tis buried deep
In the next valley-glades:
Was it a vision, or a waking dream?
Fled is that music: - Do I wake or sleep?
*
|