Sagnfræðin kannar
nú svefn og drauma.
Er þá leitast við að rekja
svefnvenjur fólks
langt aftur í aldir
út frá heimildum.
Forvitnilegt væri að sjá
svipaðar rannsóknir hér.
Í þessum athugunum
er stuðst við skráningar í
dagbókum, læknabókum
og heilbrigðisskýrslum,
dómsgögnum og bænabókum
svo dæmi séu tekin.
Í ágætri úttekt hjá
BBC fréttaveitunni
þann 22. febrúar sl.
er sagt frá rannsóknum
sagnfræðinga á svefni og
nefndir til sögunnar þeir
Roger Ekirch og bók hans
frá 2005 At Day´s Close:
Night in Times Past
og Craig Koslofsky og
nýjasta bók hans
Evening´s Empire.
Rannsóknum þeirra er
það sameiginlegt
að leiða fram þá
sögulegu staðreynd
að svefnmunstur og
svefnvenjur hafa breyst
gríðarlega í kjölfar
götulýsinga á 17. öld og
síðar Iðnbyltingarinnar.
Ennfremur að
hin lífeðlisfræðilega
hrynjandi svefnsins
sé frá náttúrunnar
hendi sú að sofa
í tveim fjögurra stunda
lotum yfir nóttina með
vöku á milli í eina
til tvær stundir.
Í sama streng tekur
Russell Foster prófessor í
taugavísindum við Oxford.
Hann nefnir að um
30% alls vanda
hjá heimilislæknum megi
beint eða óbeint rekja til
undirliggjandi svefnvanda.
Hann talar um tvílota
svefnmunstur sem sé
öllum í blóð borið en
að eðlileg líkamsklukka
raskist vegna krefjandi
lífsstíls nútímamanna,
rafljósavæðingar og
ofuráherslunnar á
átta stunda svefntíma
sem vinnandi menn þurfi.
Þá eru svefnsálfræðingar
eins og Gregg Jacobs
líka uggandi yfir því hve
svefni sem fyrirbæri
er lítt sinnt í þjálfun
nútíma heilbrigðisstétta.
Alltof lítið sé um
rannsóknir á svefni
og einnig séu of fáar
svefnmiðstöðvar sem
aðstoði í svefnvanda
og veiti ráðgjöf.
Hér áður fyrr hafi fólk
getað notað vökuna
á milli svefnlotanna
yfir nóttina til að vinna
úr ýmsu í sálarlífinu
og íhuga drauma sína.
Það sé þessi dýrmæta
úrvinnsla sem skipti
hvað mestu fyrir það
að minnka streitu
og kvíða og takast á
við verkefni daganna,
auka aðlögunarhæfni,
efla lífsgleði og lífsgæði.
Morgunljóst að tími til
íhugunar og úrvinnslu í
hraða nútímans er öllum
afar mikilvægur enda
þótt flestir þurfi að ná sem
bestum samfelldum svefni
til að vakna til nýs dags.
Huga þarf að svefnvenjum
og svefngæðum og leggja
rækt við drauma sína hvort
sem er að nóttu eða degi.
Nokkrar líkur eru á að
náttúrulegt svefnmunstur
gæti aftur orðið munstur
margra miðað við
sveigjanlegan vinnutíma
sem t.a.m. mörg störf
bjóða nú upp á og með
vaxandi umhverfisvitund;
rafljósin eru ekki endilega
það hollasta, sama hve
mikið þau hafa nú gert.
Við sjáum t.d.ekki stjörnur
kvöld-og næturhimins
sem skyldi vegna
rafljósamengunar
borga og bæja.
Hið náttúrulega ljós
er okkur best og löngu
kominn tími á
endurskoðun dagtímans
hjá okkur hér á Fróni:
breyta aftur klukkunni.
Óskandi að við séum
að þróast í átt til jafnvægis
í þessu sem öðru.
*
|