Nú er Sjómannadagshelgin
gengin í garð og mikið
um dýrðir um land allt.
Enda við hæfi að heiðra
aldagamla atvinnuhætti
sjómanna sem og
sjósóknir þeirra.
Við erum háð sjónum
um afkomu okkar
hér á Fróni og um leið
þeim sem hann stunda
til að sækja björg í bú
fyrir fjölskyldurnar í
landinu og þjóðarbúið.
Vel á minnst,
kvenmannsnafnið Björg
er sjómönnum fyrir góðu
í gömlum íslenskum
draumráðningum og eins
það að dreyma sig sigla
uppundir björg þar sem
brimar að og fuglalíf er
mikið, veit á góðan afla.
Fleiri draumtákn er varða
aflasæld og veðurfar eru
þekkt eins og það að fá á
sig ágjöf er fyrir góðum afla
eða að bátur eða skip manns
sökkvi er fyrir aflahrotu en
mikið útfiri eða ládeyða
er fyrir aflaleysi.
Hátíðarkveðjur sjómenn
nær og fjær!
Við birtum hér veðurspá
Veðurklúbbsins á Dalbæ
á Dalvík fyrir veðrinu í júni
en spáin er að hluta byggð
á draumum klúbbfélaga
sem margir eru fyrrum
sjómenn og bændur
eða eiginkonur þeirra.
Júnímánuður verður mun
hlýrri og mildari en
maímánuður enda sól
hærra á lofti. Þar við bætist
að sunnan og suðvestanáttir
verða ríkjandi í mánuðinum
sem bera með sér hlýtt
loft sunnan úr Evrópu.
Þessar væntingar og spár
eru m.a. byggðar á því
að tungl kviknar í suðri
þann 8. júní kl. 15:56 og
er það laugardagstungl.
Þá er þessi veðurspá
fyrir júní byggð á draumum
klúbbfélaga, draumum
sem eru fyrirboðar veðurfars.
Allt ber þetta að sama
brunni með vindáttir og hitafar.
*
|