Nú stendur yfir
Aðventa og mesti
myrkurtími ársins.
Nægan svefn skortir
iðulega á þessum tíma
sem kemur niður á
svefngæðum, dagfari
og heilsufarsásigkomulagi.
Í nýlegum svefnrannsóknum
við háskólann í Surrey
á Bretlandseyjum,
kemur fram að það
munar miklu að geta
lengt svefntímann
um klukkustund á nóttu,
fara t.a.m. úr sex og hálfri
kukkustund í sjö og hálfa.
Minni streituhormón
greinast þá í blóði,
ónæmiskerfið verður
styrkara og minni líkur
eru á sjúkdómum á borð
við sykursýki og offitu;
vitsmunaleg snerpa eykst.
Ennfremur er nú vitað
að með lengri svefntíma,
aukast líkur á bæði
nægum djúpsvefni
og nægum draumsvefni
en þessir svefnfasar
auka jafnvægi og
heilbrigði sálarlífsins.
.
Í djúpsvefni er talið
að endurröðun á geymd
minninga verði, að
flutningur á minningum
úr skammtímaminni yfir í
langtímaminni eigi sér stað.
Og í draumsvefni eigi sér
stað úrvinnsla tilfinninga
og tilfinningatengdra
atvika úr vökulífinu.
Þá er og vitað að
áfengisneysla seint
að kvöldi dregur úr
gæðum draumsvefnsins.
Skortur á svefngæðum
- s.s. nægum djúpsvefni
og draumsvefni -
eykur spennu í sálarlífinu
og kemur niður á
tilfinningalegri vellíðan
og aðlögun í daglegu lífi
þar sem dýptarúrvinnsla
og endurröðun í minni
næst ekki sem skyldi
í næturhvíldinni.
Sú hætta er og fyrir hendi
að skortur á djúpsvefni
og draumsvefni dragi
mjög úr skapandi leik
ímyndunarafls og tjáningar,
ekki bara í draumlífinu
heldur vökulifinu líka
og tilveran verði öll
snauðari og flatari fyrir vikið.
Á fullu tungli þessa
Aðventu á Norðurhjara,
rifjast upp heimspekilegar
vangaveltur 5 ára snáða
JTS við ysta haf:
Tunglið á heima í sólinni á daginn.
Á daginn varpar það birtu á okkur
en á nóttunni skín það myrkri.
*
|