Jafndægur á hausti í dag
og sól beint yfir
miðbaugi Jarðar.
Dagur jafnlangur
nóttu hvar sem er
á byggðu bóli.
Óvenju björt og fögur
himinsýn á Norðurlandi
síðla nætur og í árvöku.
Kveikt á allri festingunni
og morgunstjarnan Venus
í sínum fegursta búningi,
leiftrandi skír og nálæg.
Leiðir hugann að draumi
um betra mannlíf á
plánetunni og aukin
mannréttindi fyrir alla.
En draumar okkar
eru ryðgaðir draumar
ef miðað er við ástand
heimsmála nú um stundir.
Og Íslendingar mættu líta
sér nær áður en þeir týna
sér í sjálfbirgingshætti og
samúðarhræsni eins og
Guðbergur orðar það.
.
Maður líttu þér nær!
Eða ertu með þessa
upphöfnu íslensku
glýju í augunum?
Engin mannréttindabrot
á gamla Fróni?
En þrífst ekki t.a.m.
lögbundið okur hér
sem hvergi annars
staðar um gjörvalla
heimsbyggðina?
Ekkert fyrirfinnst um okur
hvorki í stjórnarskrá né
annars staðar og veiðileyfið
á landann því sjálfgefið.
Er ekki merkilegt hve
púkinn á fjósbitanum hefur
gildnað árin frá Hruni?
Ryðgaðir draumar;
tími kominn á smá
sjálfsskoðun hjá
stjórnvaldi þessa lands
og hvert stefnir með
drauma um nýja framtíð
til handa öllum.
Framtíðin er flæði
möguleika en ekki
staðnað, ómennskt
heimatilbúið ástand.
Erum við ekki
að missa af einhverju
dýrmætu: lífinu sjálfu?
Svo vitnað sé í Yoda:
Always in motion
is the future.
*
|