Á vorjafndægrum þetta árið,
erum við minnt á stöðu okkar
í Alheimi gagnvart
óravíddum himingeims
og hinum óræðu rökum
tilverunnar sem birtust
fornþjóðum fremur
í draumi og sýnum
en í gegnum efnisleg
tæki, tól og tækni.
Gerðar voru heyrinkunnar
nýlegar uppgötvanir fyrir
tilstilli útvarpssjónaukans
BICEP2 á Suðurskautslandinu
sem benda til að elsta
ljós Alheimsins sé hinn
svonefndi örbylgjukliður
sem er sú bakgrunnsgeislun
sem varð til við hita Miklahvells.
Kliðurinn sýnir Alheiminn
fyrir tíma stjarna og vetrarbrauta.
Sýnir upphaf alheims rúmlega
10 sek. eftir Hvellinn og greinir
þyngdarbylgjur sem staðfesta
óðaþensluskeið Miklahvells.
Við Miklahvell varð til
heit og þétt súpa af
róteindum, rafeindum
og ljóseindum.
Þegar heimurinn kólnaði
og þandist út, náðu
róteindir og rafeindir að mynda
vetnisatóm og ljós tók
að ferðast um víddirnar.
Í kjölfar Hvellsins varð
mishiti í alheimi.
Skammtaflökt myndaðist
og kekkir einda. Gat þá
ljósið fyrst ferðast
óhindrað um alheim.
Misþétt svæði kekkjanna
sköpuðu síðan
stjörnur og vetrarbrautir.
Þessar nýjustu uppgötvanir
í stjarneðlisfræði, (reynist
hægt að staðfesta þær betur),
eru taldar almerkustu
uppgötvanir stjarnvísinda
og skammtaþyngdarfræði
um langt árabil og gætu
átt eftir að kollvarpa
sýn okkar á þróun Alheims
og lífsins sjálfs í fortíð,
nútíð og framtíð.
Og varpa í leiðinni ljósi á
grunnkrafta Náttúrunnar
við geysilega háa orku
og sameiningu krafta.
Á fleygiferð inn í geimöld.
Það er dýnamík
í kortunum og spurning
hvaða áhrif hún hefur
á vöku okkar og drauma;
gæti leitt til umpólunar
þekktra útgangspúnkta
og fært okkur nær skilningi
á tilveru okkar sem stjarnbúa
í ómælisgeimi fleiri stjarnbúa?
*
|