Jafndægur á hausti
gengin í garð
með mikilli dýrð
og fögru sólsetri
í gærkvöldi
um land allt.
Til mikils að vinna
að leggja rækt við
land og fósturjörð.
Byggja landið jafnt
í blíðu sem stríðu.
En gerningar/gjörningar,
(af hvaða völdum
sem er),
eru sýnu verstir í
þessu samhengi.
Þjóðtungan býr
yfir mögnuðum
og myndrænum
orðtökum og
orðatiltækjum
sem rætur eiga
í draumreynslu
þjóðar í þessu
landi við ysta haf.
Orðtök og orðatiltæki
eins og:
Að láta draum sinn rætast.
Að dreyma fyrir daglátum.
Að vera berdreyminn.
Að segja draum sinn.
Að lesa í drauma.
Að vakna við vondan draum.
Betra þykir mér dreymt
en ódreymt.
Ekki læt ek drauma
ráða förum.
Ekki er mark að draumum.
Illa hafa mér gefist
draumar í dag.
Undarlega hafa mér
draumar gengið.
Hið síðastnefnda
er haft eftir Ásdísi
á Bjargi í Miðfirði,
móður Grettis sterka
Ásmundssonar.
En í Grettis sögu
eru m.a. frásagnir af
erfiðum draumförum,
myrkfælni frægasta
útlaga Íslands
- lengst í útlegð allra
eða í um 19 ár -
ofskynjunum hans
og áfallastreitu eins og
seinni tíma fræðimenn
vilja nefna það.
Þegar Ásdís kveður
yngsta soninn Illuga
og Gretti áður en
þeir halda til útlegðar
í Drangey á Skagafirði,
farast henni svo orð:
En undarlega
hafa mér
draumar gengið.
Gæt ykkar vel
í gerningum.
Fátt er rammara
en forneskjan.
Eins og sagan sýnir,
reyndist hin draumspaka
Ásdís mjög sannspá um
örlög sona sinn sem vegnir
voru í Drangey fyrir
tilstilli galdra og gjörninga.
Grettir hafði þá nær fullnustað
útlegðardóm sinn.
(Úr Grettis sögu,
höf. ók. 14. öld).
*
|