Hvað vitum við um tímann
sem leikur svo stórt
hlutverk í daglegri tilvist?
Fljótandi fyrirbæri
svo ekki sé meira sagt
og ekki auðfangaður.
Líkt og net til að veiða
vinda og drauma,
fjórvíða eða jafnvel
margvíða drauma.
Heldur áfram að tikka
þó klukkan bili, eða
tímatali ljúki...
Oft er talað um tvær
frumvíddir í alheimi,
tímann sem vídd breytinga
og rúmið sem má skipta
upp í þrjár víddir
fjarlægðir, áttir og tóm.
Nú er gjarnan talað um
fjórar rúmvíddir þar sem
tíminn er ein víddin,
margfeldi við ljóshraða.
Alheimurinn eins og
við skynjum hann út
frá núverandi þekkingu
er því fjórvídda.
Og ekkert því til fyrirstöðu
að enn eigi eftir að
uppgötvast fleiri víddir.
.
Langa talning - Long Count -
hið forna tímatal
reiknimeistaranna miklu,
Mayanna, frumbyggja
ríkja Mið-Ameríku s.s.
Guatemala og Mexíkó,
hefur nú runnið sitt skeið
eftir rúm fimm þúsund ár.
Það sem við tekur
er nýr tími samkvæmt
fræðum Maya og kann
sérstæði hans að vera
beint við nefið á okkur
eins og uppgötvanir
í stjarnvísindum hafa
nýverið fært sönnur á:
Stjörnur og plánetur
í himingeimi sem
við getum séð með
berum augum en
vissum ekki af og
hafa svipuð lífsskilyrði
og þrífast á Jörðinni.
Til að mynda
stjarnanTá Ceti
og plánetur hennar
í stjörnumerkinu
Hvalnum
og ennfremur
reikistjörnur á
sporbaug um
Alfa Centauri,
næstu stjörnu
okkar sólkerfis.
Á mögnuðum mótum
hinna tveggjaTíma
afhjúpast margt,
ekki einungis í
víddum geimsins,
heldur í verund og
samfélagi manna.
Prófraunin mikla
kann að reynast sú
að vinna með
erkitýpu afhjúpunar
- apokalyptíkina -
í mannlegri veru
án þess að vera
sleginn út í ótta
og brjáli.
Ganga ótrauð á vit
nýs tíma og taka visku
óvissunnar fagnandi.
Kærleikurinn er langlífur.
Net til að veiða vindinn:
Flýjandi djúpfiski
hlaðið glæru ljósi
einskis.
Sólvængjuð hringvötn
búin holspeglum
fjórvíðra drauma.
Týnd spor
undir kvöldsnjó
efans.
Net til að veiða vindinn:
Eins og svefnhiminn
lagður blysmöskvum
veiðir guð.
(Steinn Steinarr,
Tíminn og vatnið, 1948).
*
|