Ekki er ofsögum sagt
að 4. júlí sé merkisdagur
fyrir margra hluta sakir
í gegnum tíð og tíma,
Bæði í persónulegu lífi
okkar sem stöndum að
Skuggsjá og í víðara
alþjóðlegu samhengi,
sbr. það að vera
Þjóðhátíðardagur BNA.
.
Nú sjáum við t.a.m.
ákveðna samsvörun
við drauminn sem
birtur var á vefsetrinu
á Sumarsólstöðum
um bústnu kúlurnar
- þekktu og óþekktu -
á kosmíska stjörnutrénu:
Í gær 4. júlí í Sviss
var tilkynnt um
staðfestingu á tilvist
hinnar svokölluðu
bóseindar sem kennd er
við breska eðlisfræði-
prófessorinn Peter Higgs
við Edinborgarháskóla
og er oft teiknuð upp
sem óþekkta kúlan
á kvíslgreiningartrénu
í öreindalíkönum.
Innan öreindafræði
og skammtaeðlisfræði
er þetta ein magnaðasta
uppgötvun í áraraðir.
Varpar ljósi á hinn týnda
hlekk efnis/andefnis,
massa og þyngdarafls.
Eins konar ósýnilegt
kraftsvið sem leikur
um alheiminn og sem
aðrar eindir verða að
hreyfast í gegnum
og öðlast við það
bæði massa og þyngd.
Bóseindin - stundum
kölluð guðseindin -
mun segja okkur margt
um tilurð og þróun
alheimsins, (jafnvel
hliðarheima og fjölvídda).
Í kjölfarið kunna fleiri
eindir að uppgötvast
svo og öfl í náttúru
og alheimi sem enn
eru okkur hulin...
Bóseindin á því óefað
eftir að kollvarpa sýninni
á heiminn og stuðla
að nýrri framvindu
í tækni og vísindum.
Etv. ekki ólíkt því sem
gerðist við uppgötvun
rafeindarinnar
undir lok 19. aldar
og við sögðum frá
á fréttabloggi okkar
Steinblómadraumar Jarðar
hér á setrinu 12. maí sl.
Draumar eru sannarlega
hreyfiafl margra hluta...
Og því ber okkur að virða
og varðveita drauma okkar
og genginna kynslóða
í hendur framtíðar.
Bóseindadraumur Higgs
og vísindafélaga hans var
nær hálfrar aldar gamall
og var aldrei gefinn
upp á bátinn þrátt fyrir
margvíslegt andstreymi
í vísindasamfélaginu
á allri vegferðinni.
*
|