Jafndægur þetta haustið
marka kærkomið upphaf
nýjasta verkefnis
Rannsóknarstofu Skuggsjár
um drauma á Norðurslóð
- Á tali við ána -
þar sem samtalið
og sambýlið við
hina dulmögnuðu
álitsbláu og fögru
Laxá í Aðaldal
skipar heiðurssessinn.
Eðlislægur næmleiki
og skörp innsæisgáfa
- eins konar innbyggt
viðvörunarkerfi -
sem birtist m.a.
í draumspekt,
veðurvísi og
læsi á hegðan
dýra og náttúru,
leikur stórt hlutverk
í sjálfbærni, þróun,
lífsafkomu og menningu
á Norðurslóð;
í vistfræðilegu
jafnvægi í samspili
manns og umhverfis.
Þá er þekkt í
rannsóknum hve
næmt fegurðarskyn
og djúp upplifun
einingarkenndar
með náttúrunni
geta haft
umbreytandi áhrif
á persónu fólks
og endurnýjað
þrek og þor.
Læsi mannsins
á náttúrufar
Laxársvæðisins allt
frá Mývatnssveit
niður Laxárdal og
síðan Aðaldal til sjávar,
verður aðalviðfangsefni
rannsóknarinnar sem
unnin verður
í samstarfi við
Þekkingarsetur
Þingeyinga á Húsavík.
Margvíslegar
draumfrásagnir
og merkileg dæmi
af dularreynslu
hafa varðveist
af Laxársvæðinu
eins og sjá má í
hinni einstæðu bók
Björns Jónssonar
á Laxamýri
Rennt í hylinn
sem út kom stuttu
fyrir andlát hans
í ársbyrjun 1997.
Mikið hefur verið af
draumspöku fólki
í Þingeyjarsýslum
í gegnum tíðina,
og draumhefðin
haldist þar sterk
og margar merkar
draumskráningar til.
Að ógleymdu því að
fyrsta íslenska
sálfræðirannsóknin
var gerð á Drauma-Jóa,
draumspökum manni
á Langanesi,
í byrjun 20. aldar
af Ágústi H.Bjarnasyni,
síðar rektor Háskóla Íslands.
Þekktir eru draumar
Sigurjóns skálds á Sandi,
draumfögur ljóð
Huldu skáldkonu
og tregablandinn
náttúrulífstónninn
sleginn í skáldskap
Jóhanns Sigurjónssonar
í þekktasta og áhrifaríkasta
vöggukvæði Íslendinga,
Sofðu unga ástin mín.
Draumar og sýnir
ábúenda við Laxána
frá ýmsum stöðum
og tímabilum
hafa varðveist
í minnisbókum,
sendibréfum,
dagbókum ofl.
gögnum og sögnum.
Birtum hér merkan draum
Sigríðar Þórarinsdóttur
á Halldórsstöðum
í Laxárdal, sem hana
dreymdi fyrir syni sínum,
Þórarni, ættföður
núverandi ábúenda.
Var þessi merka
draumreynsla síðar
skráð af hinum víðförla
Willa fjölfræðingi
frá Halldórsstöðum;
(margt má um Willa
fræðast í Safnahúsinu
á Húsavík):
Þá var það eitt sinn
skömmu áður en Sigríður
fæddi sitt fyrsta barn,
að hana dreymdi
að hún væri stödd út á hlaði,
sér hún þá koma
bjarndýrshún ofan af heiðinni,
stefna heim að bænum,
fer hún þá inn í baðstofu í rúm sitt,
kemur þá bjarndýrshúnninn
á eftir henni inn í baðstofuna
og sest þar og horfir á hana.
Réð Sigríður draum sinn
þannig að húnninn
væri fylgja barnsins
en hún fæddi sveinbarn
- Þórarinn Magnússon -
skömmu síðar og var
síðan talið að
húnn fylgdi Þórarni.
En fylgjutrú hefur fylgt
Íslendingum allt
frá fyrsta landnámi
og er velþekkt meðal
veiðiþjóða á Norðurslóð.
Eru dýr, máttardýr,
þekktar fylgjur.
'
|