Um leið og Skuggsjá þakkar
árið sem er að líða,
minnum við á þá visku
kennda við Sókrates og raunar
ýmsa spekinga fyrr og síðar,
að spyrja réttra spurninga
til þess að leita réttra svara,
öðlast hlutdeild í sannleika.
En klaufska er trúlega
órjúfanlegur hluti mennskunnar.
Kannski hin einlæga
viðleitni skipti mestu...
Riddarasögur miðaldabókmennta
endurspegla gjarnan þessa mítu
og eru sumar hverjar draumkenndar,
virðast að hluta gerast í leiðslu
á mörkum draums og veru.
Veita margar innsýn í sagnaheim
Artúrs konungs og kappa hans,
segja frá Fiskikonunginum
og dularfullu hlutskipti fjölskyldu hans;
fela í sér leitina að Gralinu helga.
Segja oftar en ekki frá hetjunni ungu,
sem heldur óframfærin
og fákunnandi út í lífið
- kann ekki að spyrja réttu spurninganna -
en öðlast þó riddaratign
í heimóttaskap og mistökum sínum
sökum göfgi hreins hjartalags.
Nú hefur sagan af riddaranum Perceval
- Perceval ou le Comte du Graal -
verið þýdd og gefin út af
Hinu íslenska Bókmenntafélagi.
En vitað er um alls 5 mismunandi
frásagnir af Perceval eftir
jafnmarga ólíka höfunda.
Er ein sú þekktari eftir
riddarann og sagnaskáldið
Wolfram von Eschenbach
rituð á miðaldaháþýsku
en á henni byggði forstjóri Skuggsjár
doktorsverkefni sitt á sviði
sálmálvísinda og merkingarfræða.
Meira um það síðar.
Þessi þýðing nú er byggð
á upphaflegu Perceval sögunni
eftir fremsta miðaldahöfund Frakka,
Chrétien De Troyes frá 12. öld
sem lauk þó aldrei alveg við söguna.
Einstaklega lipur, raunar leikandi létt
þýðing Ásdísar R. Magnúsdóttur,
prófessors í frönsku við Háskóla Íslands.
Er af henni mikill fengur:
Ó, Perceval!
Gæfan er sköllótt að aftan
en hærð að framan
og bölvaður sé sá sem heilsar þér
eða óskar þér góðs í bænum sínum
vegna þess að þú greipst ekki Gæfuna
þegar þú hafðir tækifæri til!
Þú fórst til Fiskikonungsins
og sást spjótið sem blæðir
og þá áttir þú svo erfitt
að opna á þér munninn og tala
að þú gast ekki spurt af hverju
blóðdropinn rennur
af hvítum spjótsoddinum.
Og gralinn sástu en spurðir ekki
fyrir hvaða hefðarmenn
hann væri borinn.
Mikið er sá ólánssamur
sem fær besta tækifærið
upp í hendurnar en bíður
samt eftir því að fá annað betra.
(Perceval eða Sagan um gralinn, 2010, 148).
'
|