Þetta haustið ætlar að reynast gjöfult þegar kemur að
leiðslu-og draumbókmenntum.
Draumleiðsla, (dream-incubation),
er ævafornt fyrirbæri,
sem Íslendingar kunnu snemma skil á
og á margt skylt við
sjálfskapað sefjunarástand
- leiðslu eða trans -
og töfrahyggju, (shamanisma).
Hvílir á þeirri sannfæringu að hægt
sé meðvitað að óska eftir
leiðsögn í draumi og fá úrlausnir
í svefni á vandamálum vökunnar,
vernd og viðvaranir,
oft með fulltingi handanheims vera.
Á sér gjarnan stað á mörkum
svefns-og vökuvitundar,
hins meðvitaða og ómeðvitaða.
Draumleiðsla er náskyld
skírdreymi, (kucid dreaming),
að finnast maður vitandi þess
að vera að dreyma.
En skírdreymi mælist mjög hátt
hér á landi eða yfir 50%.
Nú hefur Mál og Menning
gefið út ritstýrða og afar læsilega
Sturlunga sögu í 3 bindum
með nútíma stafsetningu.
Upphaflega gaf Svart á hvítu út verkið
í ritstjórn Örnólfs Thorssonar
fyrir rúmum tveim áratugum.
Í Sturlungu má finna
eitthvert mesta safn drauma og draumvísa sem um
getur í fornsögunum.
Þar dreymir höfuðandstæðinga
jafnt og fylgismenn
fyrir stórbrotnum
og grimmum örlögum.
Sögusviðið eru Dalir og Borgarfjörður,
en þó aðallega
Eyjafjörður og Skagafjörður,
og helstu persónur höfðingjar
Eyfirðinga og Skagfirðinga.
Gerast atburðirnir á
fyrri hluta 12. aldar
til loka Þjóðveldisaldar
og eru taldir skráðir af
Þórði Narfasyni, lögmanni.
Lýsingar á draumreynslu
eru persónulegar,
þrungnar dýpt og merkingu
og settar fram á hnitmiðuðu
máli fornmanna:
betra þykir mér dreymt en ódreymt; ekki er mark að draumum.
Þegar litið er á Íslendingasögubálkinn
í fyrsta bindi Sturlunga sögu má t.a.m.
finna 18 draumvísur bara í einum kafla,
(kafla 286, bls. 410-415).
Draumvísurnar í þessum kafla
eru allar vitranir og fyrirboðar
fyrir örlögum söguhetja
og Örlygsstaðafundi (-bardaga).
Merkilegt er að vísurnar virðast
koma víða að af landinu.
Dýr leika líka sitt hlutverk
í framvindu sögunnar
sem leiðsegjendur
svo og helgir menn eins og
Guðmundur biskup góði,
ýmsar vættir og kynjaverur.
Í einni draumvísunni
krúnkast tveir hrafnar á
og kveða sitt orðið hvor:
Hverjir munu birni beitast? Hverjir munu mest við rómu? Hver mun falla hinn frækni, faðir Kolbeins eða Sturla? Brátt kemur böðvar ótti. Beit egg í tvö leggi. Menn gera mest þeir er unnu mannspell í styr falla.
'
|