Eitt merkasta draumleiðsluverk allra tíma,
Gleðileikurinn guðdómlegi
- La Divina Commedia -
eftir Dante Alighieri, (1265-1321),
í þýðingu Erlings E. Halldórssonar,
er nú komið út hjá Máli og Menningu.
Mikill ritfengur og gullfalleg
þýðing í óbundnu máli.
Þessi lausamálsþýðing Erlings
yfir á okkar ástkæra, ylhýra
er raunar það besta sem sést
hefur um langt árabil,
að mati okkar hjá Skuggsjá.
Allir sem vilja endurnýja
kynnin af þjóðtungunni,
eru hvattir til að lesa og
um leið ferðast með Dante
um draumlendurnar í
heimsmynd Miðalda.
Tónn leiðslunnar er sleginn
þegar í byrjun I. þáttar þegar
Dante lýsir - drungaður svefni -
skóginum í brjósti sjálfs sín,
og hefur draumkennda ferð sína
um lendur Vítis, Hreinsunarelds
og Paradísar:
Miðja vegu á vorri ævigöngu rankaði ég við mér í dimmum skógi, því ég hafði villst af veginum
sem liggur beint.
Leiðslukenndar sýnir Dante og
leiðsögumanna/kvenna hans,
(jafnt í vöku sem draumi),
koma víða við sögu.
Í XXVII. þætti sér Dante Leu
í hinum þriðja spádraumi sínum.
En Lea og Rakel, systir hennar,
vörðuðu leiðina makalausu til Paradísar:
Aðeins lítið svæði var sýnilegt að baki þeim, en á þessu svæði sá ég stjörnurnar blika, stærri og bjartari en endranær. Gruflandi svona og glápandi festi ég svefn, sem jafnan veit fyrir hvað gerist
áður en það gerist.
'
|