Í dag eru 215 ár liðin frá
fæðingu listaskáldsins góða
og orðasmiðsins knáa,
Jónasar Hallgrímssonar,
(16.11.1807 - 26.05.1845).
Þrátt fyrir um margt óblíða ævi
og fálæti valdsmanna um
hans lífshagi - og síðar bein -,
hafa fáir samlandar náð að lyfta
okkur í sál og sinni og láta okkur
dreyma um betri tíð fyrir mann
og annan; sannkallaður
ástmögur þjóðarinnar.
Slíkt er hans aðdráttarafl, bæði fyrr
og nú, að fjömargir geta samkennt
sig við hann í íslenkum raunveruleika
og aðstæðum. En aðdráttarafl er
eitt af nýyrðum Jónasar.
Ljóðin hans, nýyrðin, náttúrufræðin,
allur sá afrakstur, ber vott um
gríðarlega elju, afköst og næmni
skálds og fræðimanns sem lést
langt fyrir aldur fram, aðeins
37 ára gamall.
Jónas var menntaður í steinafræði
og jarðfræði innan náttúruvísinda
og hafði áður lagt stund á guðfræði
og lögfræði. Telst prestssonurinn úr
Öxnadal, - þar sem háir hólar,
hálfan dalinn fylla, - best menntaði
Íslendingurinn og fjölfræðingurinn
á sinni tíð.
Talandi um tíð og tíma: Jónas
var afar glöggur á hringrásina í
náttúrunni og gang himintungla
og þýddi m.a. merkilegt rit um
stjörnufræði eftir danska
stærðfræðinginn, G.F. Ursin.
Kom Stjörnufræði, létt handa alþýðu,
út í Viðey, árið 1842.
Í þeirri þýðingu er að finna
fjölmörg frábær nýyrði sem hafa
eignast fastan sess í þjóðtungunni.
Dæmi þar um eru reikistjarna,
sporbaugur, ljóshraði, aðdráttarafl
og þyngdarafl.
Í skáldskap og fræðum Jónasar,
má sömuleiðis víða finna falleg
og hnittin nýyrði, eins og haförn,
leðurblaka, útsýni, niðaþoka,
molla, sunnanvindur, sjónstjörnur,
sviphrein, ylhýr og hjartaþungt.
Nýlega kom út hjá Sögum útgáfu,
kærkomið bókverk sem segir
frá nýyrðasmíði Jónasar og
lýsir sögu hans í myndum,
eftir þær Önnu Sigríði Þráinsdóttur,
málfræðing og Elíni Elísabetu
Einarsdóttur, teiknara.
Verkið kallast Á sporbaug.
Þennan afmælisdag Jónasar,
grúfir skammdegismyrkrið við
marauða jörð snemmmorguns
og rakt er í lofti, síðan tekur
að rigna á köflum en léttir á milli
í hægstreymi seinnipartsins - og
um lágnættið, tekur hljóðlátt
næturmyrkrið völdin.
Óhætt að segja að hjartaþungt
sé í heimi nú um stundir og
skuggabaldur og skuggavaldra,
sé víða að finna í hamfaraveðri
tíðar og tíma. Missum ekki vonina
um betra útsýni í mannheimi.
Í einn af veðurvísum Jónasar,
yrkir hann svo:
Skuggabaldur úti einn
öli daufu rennir.
Skuggavaldur, hvergi hreinn,
himnraufar glennir.
#
|