Jafndægur á hausti runnu upp
sl. föstudag og nýtt tungl reis
á sunnudag. Mikið hamfararok
--raunar algjört ofviðri--skall á
í kjölfarið með einhverju mesta
lauffalli sem um getur á tveim
sólarhringum - og því miður
óheyrilegu tjóni víða á húsum,
mannvirkjum, innviðum, bifreiðum,
trjágróðri ofl. Þá sló rafmagni út
í klukkustundum talið, á stórum
hluta Norður- og Austurlands.
Komið að því að slíkt fárviðri með
vindstyrk á við 4. stigs fellibyli og
yfir 50m/s í verstu hviðunum,
sé tekið inn í Náttúruhamfara-
trygginu, ekki síður en flóð,
jarðskjálftar og eldgos.
En landsmenn greiða árlega
lögboðna brunatrygginu og
rennur ákveðið hlutfall hennar
síðan inn í Náttúruhamfara-
tryggingu Íslands.
Allt tal um loftslagsbreytingar
og veðurofsa þeim tengdum,
er ekki í tengingu við það sem
raunverulega er að gerast
í daglegu lífi þjóðar.
Það birti á ný og lyngdi og upp rann
einn fegursti dagur þessa hausts
hér í Eyjafirðinum, sólbjartur
frá morgni til kvölds.
Kvakandi garðfuglar iðnir við
reyniberjatínslu sem aldrei fyrr.
Og stjörnur og norðurljós leika
á kvöldhimninum ásamt
skærum og nálægum Júpíter.
Skólar komnir á fullt og verkefnin
af ýmsum toga, s.s. af hverju falla
laufin af trjánum og af hverju eru
haustlaufin í mörgum litum,
gul og rauð og logagyllt?
Lauftré draga blaðgrænuna úr
blöðunum fyrir lauffall á haustin
og senda niður í rótina.
Efnin sem eftir verða lita
laufin gul og rauð og eru
efni sem tréin hafa ekki eins
mikið fyrir að framleiða.
Haustið veldur mörgum kvíða
yfir komandi vetri og ekki að undra.
Litrík laufin fara sölnandi og náttúran
fellur smám saman í dróma vetrar.
En þótt yfirborðslífið sofi,
vakir lífið í rótinni og sem
vaxtarvísar í bruminu...
Aðstæður skólabarna eru afar
mismunandi hér á landi og
sumir barnahópar hafa alls
ekki hlotið þá athygli og
stuðning sem þeim ber.
Má þar nefna börn fanga.
Mun málþing á vegum
Umboðsmanns barna fjalla
um þau mál á næsu dögum.
Enn hefur Ísland ekki fullnustað
Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Börn eru börn og þurfa stuðning
til að vaxa og dafna, sofa og
dreyma. Gleðjast yfir lífinu og
fjölbreytileikanum sem m.a.
birtist í litum árstíðanna.
Öll höfum við skyldur við
börn ef við ætlum að standa
undir nafni mannúðlegs samfélags.
En skeytingarleysi er einn af
bölvöldumn--níðhöggum--nútímans
og sverfur að mildi og manngæsku.
Leyfum börnum að vera börn
að leika og læra - og syngja.
Víða á leikskólum og í skólum
landsins, hefur tíðkast að syngja
óðinn til haustlaufanna eftir
kennarann og skáldkonuna,
Önnu Svanhildi Björnsdóttur,
við lag Þorvaldar Arnar Árnasonar:
Við erum haustlaufin
sem leika í golunni.
Fagurrauð, með litla
ósýnilega vængi.
Glettast og láta sig
engu varða
þótt veturinn sé í nánd.
Við áttum okkar sumar,
áttum okkar vor
en núna erum við
rauðglóandi
af ástríðu haustsins.
Við erum haustlaufin...
#
|