Háar hitatölur á hálfskíjuðum
sunnudegi hér í Eyjafirði og
fjöllin rísa björt í brjóstinu.
Vitneskjan um júlítíma í kortunum,
er ekki bara glaður draumur heldur
raunveruleiki: hásumar.
Og fjöllin rísa björt í brjósti þér,
þau benda heim svo langt sem auga sér.
Og moldin vakir, mold og gróin tún
- og máttug rís þín sól við fjallabrún.
Svo kveður Matthías Johannessen,
(1930-2024), í ljóði sínu
Ávarp Fjallkonunnar 1967.
Í dagsins önn og argaþrasi og
auknum áhyggjum venjulegs fólks
út af kolrangri hagstjórn og sí
endurteknum tilraunum með
fjármálakerfi sem drifið er af okri
undanfarna rúma fjóra áratugi,
veðrur æ minna um eðlilegar og
nærandi svefnhvíldir og mikilvæga
úrvinnslu drauma. Úrvinnslu sem
talin er nausynleg fyrir endurröðun
daglegrar reynslu í minni og
heilun tilfinninga og samskipta
úr vökunni. Og nú síðast, tala
fræðingar um taugafræði
miðtaugakerfis og heilaheilsu
í þessu samhengi.
Nú um stundir, dregur úr tímanum
til dagdrauma--sími og samskipta-
miðlar, tæki og tól taka yfir--og
trúlega eru þeir nú meir kvíðablandnir
en áður var, litaðir af
áhyggjum af stöðu mála
í afkomu fólks og ástandinu
í heiminum víðast hvar.
En nú er talið að leikgleðin
í draumum næturinnar og í
dagdraumum okkar, séu
náskyld fyrirbæri.
Í leikgleði drauma skapast
svigrúm fyrir vonir og skapandi
sýnir á nýja möguleika og
oft vaknar dreymandi fullur
af nýjum þrótti til verkefna
dagsins. Ímyndunarafl og
sköpunargleði nátengd hvort
sem er í vöku eða svefni.
Töfrar draumsins mega
ekki fara halloka fyrir
vélhyggju nútímans.
Talið er að fólk dreymi a.m.k.
3 til 5 drauma á nóttu hverri en
minni á þá er vissulega misjafnt.
Reynslan sýnir að draumar
sem hreyfa virkilega við
dreymandanum varðveitast
betur, fólk man þá einfaldlega
mun betur. Og gjarnan hafa
slíkir draumar ýmist djúpa,
persónulega merkingu fyrir
dreymandann og/eða eru
forboðar um komandi atburði.
En almennt eru draumar
síkvik fyrirbæri og ekki
óeðlilegt að þeir gleymist
í flæði svefns og vöku þegar
dreymandinn sér þá örstutt
fyrir sér nývaknaður og svo
eru þeir horfnir.
Hliðið að undirmeðvitundinni
sem geymir alls konar upplýsingar
úr reynslu daganna og af áreitum
sem raunar sum mega alveg
vinsast úr og gleymast í
óminnishafinu.
Stór hluti af mennsku okkar
að láta sig dreyma um heima
og geima í vöku sem draumi.
Draumar gerast í flæði og
spurning hvort AI-gervigreindinni
takist nokkru sinni að höndla hið
flæðandi og skapandi
eðli drauma og tilfinninga?
En nú þegar eru sumir innan
draumfræðanna farnir að skoða
með notkun gervigreindar við
flokkun draumtákna og draumsafna
og getur þannig komið að góðu gagni.
Já, en dreymir AI rafkindur?
Getur AI spunnið eitthvað nýtt,
upplifað tilfinningar og tamið
sér leikgleði draumlífsins?
Stórar spurningar sem framtíðin
mun eflaust færa okkur nær
svörum við svo fremi mannkyni
lánist að nýta gervigreindina
til góðs og umgangast af virðingu.
#