Kyndilmessa er í dag og víða
haldin hátíðleg hérlendis til þess
að fagna sólarsýn eftir að sól
í þverhníptum fjörðum landsins
hefur ekki sést í 2 til 3 mánuði.
Við fögnum því að sól hækkar á lofti
og birtustundum fjölgar jafnt og þétt.
Kyndilmessan er sannkölluð
ljósamessa í eiginlegri sem
óeiginlegri merkingu; kertamessa
-Missa candelorum--eins og
hún er nefnd í kristnum sið,
hreinsunarhátíð Maríu meyjar.
Dagurinn er aldagamall veður-
vitadagur hérlendis: ef í heiðri
sólin sést á sjálfa Kyndilmessu.
Sem sé, ef sólin sest á heiðum
himni 2. febrúar, var það talið vísa
á snjóa næstu vikur á eftir.
En fólk átti mikið undir veðri á
þessum árstíma, varð að þreyja
Þorrann og Góuna, og vetrarvertíð
hófst í vikunni eftir Kyndilmessu.
Svipuð veðurtrú varðandi lengd
vetrar og almennt veðurfar,
kemur fram víðar, og er t.d.talað
um dag Múrmeldýrsins,,eða
Groundhog Day, en þá kemur
múrmeldýrið út úr holu sinni.
Ef það er heiðríkja og það sér
skugga sinn, hverfur það aftur
til baka inn í holuna, og er vetur
þá talinn áfram næstu 6 vikurnar.
Groundhog Day, 2. febrúar,
er hátíðisdagur í Bandaríkjunum
og Kanada.
Á Kyndilmessu, 2. febrúar 2002,
eða 02.02.2002. tók sálfræðistofan
Strönd-Akademía formlega til starfa,
og fagnar því 20 ára afmæli í dag.
En stofan kom að stofnun Skuggsjár
draumaseturs árið 2003, og hefur
sinnt sálfræðiþjónustu fyrir börn,
unglinga og fullorðna á Akureyri
og víða á landsbyggð öll árin og
er elsta sálfræðistofan í eigu konu
utan höfuðborgarsvæðisins.
Sálfræðistofan hefur haft orð þýska
skáldsins og heimspekingsins,
Johann W. von Goethe, (1749-1832),
að leiðarljósi um hinn nýja dag
sem ætíð rís úr djúpi tímans:
til nýrrar standar
lítur dagur hver.
Í hafvillum mannlífsins er
vandsiglt oft á tíðum og
ferðin heiman og heim
kallar iðulega á áttavita,
kort að sigla eftir og á
reyndan leiðsegjanda
til þess að sneiða hjá
afvegaleiðsögn afla og
vætta, hinum svonefnda
villusöng sírenanna.
Öll erum við Ódysseifar
í vissri merkingu, í stöðugri
leit að merkingu og tilgangi.
Þessi leit gerir okkur að því
sem við erum líkt og segir
í Ódysseifskviðu sagnaskáldsins
Hómers á 8. öld f. kr. og
síðar í meistaraverki írska
skáldjöfursins, James Joyce,
(1882-1941), Ulysses.
En í dag eru einmitt 100 ár liðin
frá fyrstu útgáfu bókarinnar í París.
Joyce var fæddur 2. febrúar og
stóð þá á fertugu.
Megi hver og einn ná heim
að lokum á sína kyrrlátu strönd,
reynslunni ríkari:
Ég sem hef hlýtt á sýrenurnar syngja
mun senn koma úr hafi, una kyrrlátum ströndum
með seiðmáttkar raddir runnar mér í blóð.
(Hannes Pétursson, 1931 - ;
Stund og staðir; Helgafell, 1962).
#
|