Haustið í allri sinni litadýrð er
mætt á svæðið: haustjafndægur
nýafstaðin; fullt tungl stuttu fyrr.
En hér áður var talað um sumar
frá um 20. maí til 20. september
og gjarnan miðað við jafndægur
á hausti en þau falla allajafna á
bilinu 21. til 23. september.
Nú líður tími fljótt til veturnátta
síðla októbermánaðar.
Magnaður tími genginn í garð;
gengur nú mörgum betur
að svífa í draumlönd inn
þegar rökkur færist yfir.
Svefn hefur farið úr skorðum hjá
mörgum í kófinu og þarf að gera
átak í að huga að svenfheilsu, ekki
síst hjá börnum og unglingum.
Fræða um svefn, kynna bjargráð
til þess að bæta svefn og leggja
áherslu á að unglingar þurfa mun
lengri svefn en þeir eru t.a.m. að fá.
Á sama tíma hefur kvíði aukist
hjá öllum aldurshópum en þekkt
er að kvíði speglast í draumlífinu.
Martraðarkenndum draumum
fjölgar og svefnórói eykst eins og
draumrannsóknir við Læknadeild
Harvard háskóla sýna m.a.
Víða á Vesturlöndum er nú
talið að fyrir kófið hafi um 4 af
hverjum 10 átt erfitt með svefn
en nú eru þeir um 6 af hverjum
10, að talið er. En til eru líka þeir
sem telja svefn sinn hafa lagast í
kófinu og þeir hafi náð að endurmeta
lífsvenjur sínar til hins betra og
upplifa lækkað kvíðastig.
Ljóst er að ónógur svefn og/eða
svefntruflanir hafa heilmikil áhrif á
eðlilega og mikilvæga úrvinnslu
tilfinninga og hugarstarfs og geymd
í minni, og þar með á draumlífið.
Allt mikilvægt fyrir vöxt og þroska
heilbrigðs miðtaugakerfis og úthald
og aðlögun í daglegu lífi.
Fyrir utan það að draumar hafa
ákveðinn sess meðal þjóðarinnar
fyrr og nú bæði menningarlega
og félagslega.
Í Gallup könnun Skuggsjár frá 2003,
kom í ljós að 72% fólks á aldrinum
18 til 85 ára, taldi drauma hafa
merkingu fyrir sig í daglegu lífi,
vera mikilvæga fyrir þá sjálfa
og ekki bara eitthvert merkingar-
laust rugl. Úrtakið var 1200 manns
og tekið út frá aldri, kyni, búsetu
og efnahag. Svarhlutfall 67.5%
sem telst býsna gott.
Nú í haustbyrjun, lést ein fyrsta
atómskáldkona okkar Íslendinga,
seyðfirðingurinn Vilborg Dagbjartsdóttir,
kennari, þýðandi og barnabókahöfundur.
Talandi um haustið, farfuglana: skógar-
þrestina og reyniberin, þá segir hún
lítil börn með skólatöskur, koma með
haustið.
Sum ljóða Vilborgar koma á sinn
kyrrláta hátt inn á nóttina og
svefn og drauma eins og
segir í Næturljóði hennar:
Hve mjúklát er nóttin,
mildum höndum fer hún
um slaka hörpunnar strengi
og kveður þig í svefn.
Ljúfir eru draumar
í rökkursölum hennar
þar sem aldrei skíma
nær af dagsins ljósi.
Fölur tunglskinsbjarmi
lýsir inn um glugga
rétta fullan bikar
þjónustufúsar hendur.
(Vilborg Dagbjartsdóttir,
1930-2021).
#
|