Gísli var draumamaður og sá ýmislegt
fyrir í draumum sínum og ræddi við
sína góðu konu, Auði Vésteinsdóttur,
sem líka var draumspök. Hann kvað
vísur um draumreynslu sína. Gísli átti
sér draumkonur tvær. Aðra hræddist
hann og voru svefnfarir oft harðar.
Iðulega óttaðist hann að falla í svefn
en hreystimennið, sem hann var,
gekkst við myrkfælni sinni.
Gísli hafði erfiðar svefnfarir næturnar
áður en lokaáhlaupið var gert á hann
á Einhamri í Geirþjófsfirði hvar hann
hné í valinn eftir frækilega vörn
með iðrin úti, sem hann hafði safnað
saman undir skyrtu sinni og bundið
fyrir með reipi og haldið áfram að berjast
hreystilega og drengilega til hinstu stundar.
Óhætt er að segja að Gísla saga
Súrssonar sé sú fornsagnanna, sem
einna besta grein geri fyrir draumum
og svefnförum. Er sagan um margt
borin uppi af trú Gísla á forspá
drauma sinna og eru lýsingar á
erfiðum svefnförum og draumsýnum
í samræmi við þekkta sammannlega
reynslu.
Gísli var vitur maður og draumamaður mikill
og berdreymur, segir í sögu hans.
Í Gísla sögu er sagt frá viðvörunar-
draumum, og að Gísli hafi eitt sinn látið
illa í svefni tvær nætur í röð. Hann tók
þessa draumboða sem forspár um
yfirvofandi hættu tengdri Vésteini,
fóstbróður sínum og mági. Áður hafði
Gísli reynt að sjá til þess að Vésteinn
yrði varaður við að koma í Haukadal.
Í eitt skiptið, hittu sendiboðar Gísla,
Véstein á Gemlufallsheiði, sem er heiðin
milli Önundarfjarðar um Bjarnardal
í Dýrafjörð.
En Vésteinn lét kylfu ráða kasti,
lét skeika að sköpuðu og hélt
för sinni áfram þrátt fyrir viðvaranir.
Fór svo að hann náði í Haukadal en
var veginn þar í svefni.
Af hvers hendi eða hverra, er svo
stóra spurningin.
Eftir Vésteini er í þessu samhengi
höfð hin fleyga setning:
nú falla vötn öll til Dýrafjarðar.
Líkt og í náttúrunni þegar ár og lækir falla sína
leið niður brattann og ljúka ferð sinni til ósa,
er því eins farið með mannfólkið, öllu er afmörkuð
stund. Samkvæmt slíkri heimsmynd, fær enginn
umflúið sinn skapadóm.
Dýrafjörður geymir mörg djásnin, bæði í
náttúru og mannlífi. Eitt af því, sem einkennir
staðhætti, sögu og menningu, er magnaður
fjársjóður hafdjúpanna, lífsbjörg margra.
Á fyrri tíð voru margir útvegsbændur á þessum
slóðum, bæði í Haukadal og á Þingeyri þar sem
þorpsmyndun hófst snemma. Samskipti og
vöruskipti við útlönd voru umtalsverð, ekki
síst við Frakkland. Gjarnan var talað um
svokallaða Haukadalsfrönsku, mállýsku, sem
varð til á milli íslenskra og franskra sjómanna.
Nú er unnið að því að draga úr fólksfækkun og
efla nýsköpun og atvinnulíf á Vestfjörðum,
m. a. í Dýrafirði, í gegnum byggðaþróunar-
verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir.
Verkefni Þingeyrar nefnist Öll vötn til Dýrafjarðar
og leiddi til stofnunar Nýsköpunar og samfélags-
miðstöðvar á Þingeyri árið 2017, sem hlaut
nafnið Blábankinn.
Nýr bankastjóri Blábankans á Þingeyri er
Birta Bjargardóttir, vísinda-og menningarmiðlari
frá Bath háskóla á Bretlandi, en hún hefur
lengi komið að verkefnum Skuggsjár.
Hjartanlegar hamingjuóskir til Birtu með þetta
mjög svo þarfa og skemmtilega starf á Þingeyri!
Að ganga sinn llífsveg í takt við náttúruna
og eðlilega framvindu lífsins, krefst árvekni
á vegferðinni nú sem endranær.
Sé örlagabraut vor fyrirfram vörðuð,
- öll vötn falla til Dýrafjarðar -,
er óskandi að við höfum þó heilmikið
um það að segja hvernig við fetum hana.
#