Næturljóð og dagljóð hljóma þeim sem
leggja við hlustir frá öldum himinvakans.
Tónskáldið Chopin samdi fjölmörg
píanóverk sem fanga þennan djúpa
andblæ, s.s. Næturljóð, og sem Dalaskáldið
Jón frá Ljárskógum, (1914-1945), einn stofnanda
MA-kvartettsins, samdi sitt næturljóð við.
Þar er ort um frið draumsins og grið svefnsins
þegar sorg og harmur er annars vegar:
Kom ljúfa nótt, sigra sorg og harm,
svæf mig við þinn barm,
svæf - draumsins frið og gef mér grið.
Góða nótt.
Í kófinu hafa menn gert sér æ betri
grein fyrir mikilvægi svefnsins og góðra
næturhvílda fyrir sál og líkama.
Á sér grunn í svefnbyltingu síðustu ára
en fyrst og fremst í vitneskju aldanna.
Og margir tala nú um aukið draumflæði og
betra minni á drauma sína sem fylgja
þeim inn í daganna streð, leiðbeina og styrkja.
Við þurfum nægan og góðan svefn til þess
að takast á við þroskaverkefni okkar
og áskoranir daganna. Nú er t.a.m. betri
skilningur á, að áður en farið er í meðferðir
á sálrænum meinum, þurfi fyrst að ráða bót
á svefnvanda sem iðulega er undanfari
og/eða fylginautur þeirra.
Einn er sá geðlæknir íslenskur sem var
frumkvöðull að því að lækna og líkna
og stuðla að bættri umönnun geðsjúkra,
og sem margir telja fyrirmyndina að
geðlækninum Brynjólfi í bók Einars Más
Guðmundssonar, Englum Alheimsins,
frá 1993. Hvar Einar fjallar um veikan
bróður sinn á Kleppspítala og þá meðferð
og skilning sem veikindi hans hlutu þar.
Þessi frumkvöðull í mannúðlegri geðmeðferð,
--magnaður píanisti og gönguhrólfur--, var
Ólafur Jóhann Jónsson, sem lést í hárri
elli haustið 2017. Þegar séra Sigurður Árni,
minntist hans í Hallgrímskirkju við útförina
á Allraheilagramessu, talaði hann um að:
Ólafur hefði spilað sig inn í himininn. -
Ólafur er farinn inn í hina miklu tónstöð
himinsins. Þar eru næturljóð en líka dagljóð...
Í nýlegri bók Elísabetar Jökulsdóttur,
Aprílsólarkulda, lýsir hún reynslu sinni
af andlegum veikindum og þeim breytingum
sem urðu á dagsformi hennar og skynjun.
Fjallið sem var ávallt stöðugt en sjórinn
á hreyfingu, verður nú fjall á hreyfingu en
sjórinn í kyrrstöðu...
(Nú birtast raunar draumar í næturljóðum og
dagljóðum um fjöll á hreyfingu sem eru að
raungerast nánast á hverri klukkustund
á Reykjanesinu).
Mæta þarf einstaklingnum þar sem hann
er staddur hverju sinni; auðsýna góðvild.
Sorg og áföll, áhyggjur og svefnleysi,
hafa sett marga fram af bjargbrúninni;
ekki að ósekju að talað sé um brostin hjörtu.
Ólafur Jóhann var mörgum lærifaðir í fræðum
sem fagi og lék slíka læknislist af fingrum fram.
Nýlega kvaddi jarðvistina, nemandi hans og
starfsbróðir, Sigmundur Sigfússon, forstöðulæknir
geðlækninga um áratugaskeið við Sjúkrahúsið
á Akureyri, áður Fjórðungssjúkrahúsið - FSA.
Þeir deildu sýn á geðmeðferð; elskuðu tónlist
og magnþrungna náttúruna, blíða sem óblíða.
Megi þeir vinir fara blessaðir, ferðafélagar á
nýjum slóðum í dýrðarheimum hljómanna.
Báðir komu að uppbyggingu heildrænna geðmeðferða
og dagdeildarþjónustu á Akureyri fyrir andlega
þjakaða einstaklinga sem forsvarskona Skuggsjár
veitti forstöðu um árabil.
Var Sigmundur m.a. frumkvöðull að viðrun í áfallahjálp
og sorgarúrvinnslu og ötull talsmaður samtalsmeðferðar.
Trú þeirra félaga á mikilvægi svefns og drauma fyrir
líf og heilsu, ber vott mikillar framsýni í heilbrigðisfræðum.
Skuggsjá þakkar þessum mögnuðu mannvinum og
lærifeðrum alla tiltrú og stuðning.
#
|