Gáfaðir dagar sem geta gefið svör við öllu,
ritar Nóbelskáldið í Sjálfstæðu fólki.
Gott er að eiga slíka daga því dagar
vorir eru vissulega misgóðir og -gáfaðir.
Höfuðdagurinn 29. ágúst, er lýsandi fyrir
þetta afstæði daganna, hægt að líta á hann
sem gáfaðan dag sem markar tímamót
í Náttúrinni á síðsumri.
En skuggadagur í Kristni vegna aftöku
Jóhannesar skírara sem sagður var
hálshöggvinn þann dag og heitir
Höfuðdagur eftir þeim verknaði.
Á vorum tímum er Höfuðdagur,
afmælisdagur Akureyrar í Norðrinu.
Talandi um gáfaða daga í ritverki
Halldórs Laxness, þá er skírskotað
til drauma og gáfu þeirra í Sjálfstæðu
fólki út um alla bók og í leiðinni dregin
fram vantrú Bjarts í Sumarhúsum á allt sem
andlegt getur talist--dularöfl tilverunnar--,
gott eða ekki gott. En ást hans og
trúnaður við Náttúruna stendur eftir hvað
sem á bjátar. (Og raunar heitir hann
Guðbjartur fullu nafni!).
Og nú eru uppskerudagar gengnir í garð,
og reynitréin í görðum landsmanna
standa klifjuð rauðum og bústnum
berjum eftir milda sumartíð og fuglar
syngja kátir við berjatínslu, safnandi
í sarpinn fyrir harða vetrarmánuði.
Hér áður var reyniviðurinn talinn helgur
og ekki mátti höggva hann nema af hlytist
skaði. Hann var verndartré fyrir illu og hefur
vaxið hérlendis ásamt birki, blæösp og
gulvíði frá landnámi í það minnsta.
Þetta merka og fagra lauftré er raunar ein
tegund asks, svokallaður fjallaaskur af rósaætt.
Og samkvæmt Gylfaginningu og Völuspá,
er askurinn efniviðurinn í fyrsta manninum
og álmtré í fyrstu konunni: Aski og Emblu.
Goðin fundu þau lítt megandi og
örlögalaus á sjávarströndu og Óðinn
gaf þeim önd og líf og bræður hans
gáfu þeim vit og hræring, ásjónu,
mál, heyrn og sjón.
Merkileg sköpunarsaga þar sem
mannfólkið er komið beint frá Náttúrunni
og gjöfum hennar, trjánum.
Tré og skógar eru lungu Jarðar,
sem ber að vernda og virða og nýta
á sjálfbæran hátt, ætli mannfólkið
að byggja lífvænlega Jörð og sporna
gegn tilkomu alls kyns óáránar, s.s.
alvarlegra sjúkdóma og faraldra.
Að ógleymdum gróðri sjávar, þörunga-
skógum og plöntusvifsbreiðum.
Varðandi verndarmátt reyniviðarins,
má geta þess að ein tegund reyniviðar,
hinn svokallaði Silfureynir, er nú
talið það tré sem bindur hvað mest
koltvísýring og spornar kröftuglega
gegn mengun. Gott og þarft götutré
til kolefnisjöfnunar og er elsta innflutta
tré Reykjavíkur, silfurreynir frá 1884 sem
stendur í Fógategarðinum svokallaða
við Aðalstræti 9.
Segir svo í Völuspá:
Önd þau né áttu,
óð þau né höfðu,
lá né læti
né litu góða;
önd gaf Óðinn,
óð gaf Hænir,
lá gaf Lóður
og litu góða.
#
|