Sumarsólstöður eru í dag 20. júní og
svokölluð sólstöðumínúta kl. 21.44 í
kvöld. Dagur er nú lengstur og sól
efst á himinbaugi. Tíminn stendur í stað
eina örskotsstund í kvöld. Síðan fer sól
að hverfast til nýs tíma og dagur að styttast.
Vanalega ber sólstöður á sumri
upp á 21. júní en vegna hlaupárs í ár,
eru þær í dag. Óbreyttur vinnumaður
að Múla í Aðaldal á 12. öld, reiknaði út
sólstöður á sumri og vetri og hlaupár og
margt fleira og færði löndum sínum
þau merku fræði. Magnað!
Margt tökum við nútímamenn sem
sjálfsögðum hlutum sem forfeðurnir
þurftu að leggja á sig ómælt erfiði fyrir.
En hræringar dagsins í náttúrunni og
yfirstandandi farsótt um heim allan,
minnir okkur óþyrmilega á að tími er til að
vakna og horfast í augu við veruleikann.
Verulega snarpir jarðskjálftar urðu upp
úr kl. 15 á Tjörnesbrotabeltinu úti fyrir
Eyjafirði og Siglufirði við Gjögurtá og
fundust víða.
Í draumi nætur, sást hafblár, glæsilegur
og hraðskreiður fólksbíll bruna niður
götuna og fór ekki að neinum umferðar-
reglum, slíkur var hraðinn, en sást þó vel
í afturhutann, klesstan stuðara og klesst
aftara horn, sem sneri að húsinu, rétt áður
en hann hvarf sjónum og hélt ótrauður
áfram för sinni þó laskaður væri.
Er óskandi að það gangi eftir og að hamfarir
verði ekki frekari og verri né tjón á mönnum
og málleysingjum og eignum.
Ljóst að Náttúran fer ekki að manngerðum
lögum og reglum heldur eigin lögmálum.
Já, margt býr í draumum...
Um það vitna fornar sagnir og nýjar en
í dag á Sumarsólstöðum er minning
Stjörnu-Odda heiðruð austur í Aðaldal
með minnisvarða við Grenjaðarstað
og neðan Múla og málþingi í Ýdölum.
En Stjörnu-Oddatala sem við hann er kennd,
segir frá merkum draumi eða draumleiðslu
Odda Helgasonar, vinnumanns á Múla í
Aðaldal á 12. öld. Lýsir athugunum hans
á gangi himintungla, útreikningum fyrir
sólstöður og hlaupár, ofl. í 3 köflum.
Talan var líka glöggur vegvísir sæfaranda
að rata og sigla eftir á miðöldum.
Tekið skal fram að fátt er vitað um hinn
raunverulega og stjarnvísa Odda
nema frásögn hans, eða tala, hefur
varðveist á 2 blaðsíðum í Íslendinga-
þáttum frá 13. öld, og 2 kaflar af þrem,
birtast í Hauksbók frá 14. öld, í
Rímbegluhluta hennar.
En rím er þar notað í merkingunni tími.
Stjörnu-Oddi þótti afburða rímspakur...
Vel er við hæfi að bæði heiðra
og halda á lofti minningu Odda,
eins merkasta vísindamanns
Íslendinga og tímatalssérfræðings
okkar á miðöldum og til dagsins í dag.
Ýmislegt bendir til að Oddi hafi
haft aðgang að ritum um stjarnvísindi
og stærðfræði, s.s. hins persneska
Muhammad al-Khwarizmi--Algorithmi,
(ca. 780-850), fremsta stærðfræðings miðalda
og höfund bæði algóritmans--algrímsins
og algebrunnar. Og af mörgum nú talinn
forgöngumaður nútíma tölvunarfræða.
Að ótöldu því að Íslendingar fóru
trúlega víðar á þessum tíma um
Evrópulönd, Miðausturlönd og einhverjir
etv. um Silkiveginn lengra austur en
við gerum okkur almennt grein fyrir.
Og komust með ferðum sínum í kynni
við ýmsa heimspeki, siði og menningu,
nýjar vísindahugmyndir og uppgötvanir.
Kannski fór Oddi slíkar ferðir og/eða hlaut
vitneskju sína í ferðum draumheima!
Stjörnu-Oddatala í Íslendingaþáttum
og í Hauksbók, segir frá draumi eða
draumleiðslu Odda sem var eitt sinn
staddur úti í Flatey á Skjálfanda að vitja fiskjar.
Oddi vaknar um miðjan draum og gengur út
og horfir til himins og stjarna. Leitar svara við
tíð og tíma og segir fram athuganir sínar.
Frásögn hans--tala--finnst skráð í tímatali
Hauksbókar sem Haukur Erlendsson,
lögmaður, ásamt fleirum, er talinn hafa
skráð á 14. öld, þá úr eldri handritum.
En í Hauksbók segir líka frá kenningu
Algorismus; líklega hafa skrif varðveist
á latínu, þýdd á fornmál vort; upprunaleg
skrif á arabísku hafa enn ekki fundist.
Vitað er að Haukur var búsettur í Gaulverjabæ
í Flóa í byrjun 14. aldar, og er Hauksbók
byggð upp af handritum nokkurra fornsagna
svo og Völuspár, Rímbeglu ofl. rita. Og eru
2 kaflar Oddatölu skráðir með rithönd Hauks sjálfs.
Það merkilega er að nokkur hundruð
árum síðar, eða í byrjun 18. aldar, finnur
Árni Magnússon, handritasafnari, skinnhandrit
Hauksbókar í Gaulverjabæ eftir að sum handrit
hennar höfðu farið víða um land, að talið er.
En ratað heim!
Tilveran er greinilega ekki bara línuleg
heldur hafa algrím almyndar/heilmyndar,
(hologram), mmeð tíma okkar og tilveru að gera.
Líkt og draumar minna okkur á en
í þeim ríkir visst tímaleysi. Svo er það
hinn óræði Draumtími--Dreamtime.
Tíminn handan tímans...
#
|