Páskar enn á ný við ysta haf.
Tími upprisu og endurnýjunar
í Náttúru og mannheimi.
Tíminn í raunheimum er öðruvísi
en í draumum en samt er tími
daganna nú, líkari draumi,
raunar líkari martröð en nokkru
öðru eða nokkru sinni fyrr hjá
nútímamönnum. Að hugsa ekki
bara í tímalínum heldur í hringrás,
gæti reynst hjálplegt á þessum
óvissutímum.
Eyfirskur afdalabóndi á síðustu öld,
Kjartan Júlíusson á Skáldstöðum efri,
var þekktur af sínu heimilisfólki fyrir
áhuga sinn á tímavíddum drauma en
einnig af landkönnun sinni á fjöllum;
einkum fór hann þessar fjallaferðir
að kvöld- og næturlagi þegar skilin
dags og nætur runnu saman.
Kjartan skráði daglega drauma sína,
m.a. á pappírshólkana af Tímanum
sem þá var víða keyptur til sjávar
og sveita og barst með ötulum
póstinum/mjólkurbílnum frameftir.
Góð vinkona Skuggsjár, alin upp
hjá Kjartani og konu hans í gamla
torfbænum á Skáldstöðum til
10 ára aldurs, kann ýmsar sögur
af Kjartani og Halldóri Laxness,
sem var mikill vinur hans og
tíður heimilisgestur. Spurning
með Bjart í Sumarhúsum... og
makalaus táknfræði bæjarnafnsins,
Skáldstaðir, í því samhengi!
Kjartani varð tíðrætt um hreina og
tæra loftið á fjöllum og hve létt væri
að ganga þar í efstu hæðum.
Hann lýsir fjallakönnun sinni í bókinni
Reginfjöll að haustnóttum sem Iðunn
gaf út 1978 með formála nóbelskáldsins.
En þar talar Laxness m.a. um fjallamálverk
sem þá voru komin í tísku á veggjum
landsmanna og hve þau færa landann
nær náttúrunni og kynngi hennar.
Enduruppgötvun náttúrunnar á
stofuvegg, hvetur til fjallakönnunar
í raunheimi!
Sannkallað barn náttúrunnar, Kjartan,
sem tók mark á draumum sínum
til leiðsagnar og virti gjafir þeirra.
Um leið og hann kannaði hin þunnu
skil heimanna og möguleikana á
að sækja þangað ljós og visku,
þá virðist hann hafa sótt í
spilverk minninga úr fortíð en
líka áfram úr framtíð líkt og
frumbyggjar víða um heim.
En Öldungar þeirra kveða sér nú
hljóðs og má þar nefna Öldunga
Hopi indíána og frumbyggja
Ástralíu. Skilaboð þeirra
tengjast skilum heima og vídda:
við erum að ganga í gegnum
óhjákvæmilega gátt breytinga,
(port--portal), og inn í nýja tíma
og nýja vídd.
Verum vonbjört þessa páska
og gleðjumst yfir lífinu þrátt
fyrir viðsjár. Gerumst læs á
þær rúnir sem náttúran ristir.
#
|