Nú skín sól--góða guðsaugað--
á norðurhjara, eftir margra
dægra þungbúinn himinn,
og þar áður illviðri og hamfarir,
m.a. í Öxnadal hvar þjóðskáldið,
Jónas Hallgrímsson, fæddist,
á þeim fagra stað, Hrauni,
í einhverjum dulmagnaðasta og
töfrum sveipaðasta fjallasal Íslands:
Ástarstjörnu yfir Hraundranga...
En það dimmir fljótt innarlega
og sólarljósið sést ekki um langt
skeið á köldum vetrum.
Bernskuárin dvaldi Jónas á
Steinsstöðum í sama dal
með fjölskyldu sinni en eftir
föðurmissi við 9 ára aldur,
ólst hann upp að Hvassafelli
í Eyjafirði hjá móðursystur sinni.
Talið að hann hafi verið þar
sín unglingsár, allt til tvítugs..
Fögnum jólasól og endurfæðingu
hennar nú þegar sól tekur
að klifra hærra á himinboga.
Talandi um himinn, sól og stjörnur,
þá átti hinn hagi orðasmiður,
ljóðskáld og náttúrufræðingur,
Jónas Hallgrímsson, (1807-1845),
ýmislegt í fórum sínum sem tungutak
yfir furður sköpunarverksins,
eins og reikistjarna, sporbaugur,
ljósbogi, aðdráttarafl og miðflóttaafl.
(Fjölfræðingurinn Jónas var jafnframt
menntaður í stjörnufræði frá
Kaupmannahafnarháskóla).
Lífið fór ekki alltaf mjúkum
höndum um Jónas, hann
þekkti bæði sæluna og kvölina
og sálarþyngslin sem margir
upplifa í svartasta skammdeginu.
Hann þekkti þrána eftir ljósi og birtu
og orti m.a. um endurfæðingu
sólar í desember í ljóði sínu
Sólhvörf:
Eilífur guð mig ali
einn og þrennur dag þenna!
lifa vil eg svo ofar,
enn eg líti sól renna.
Hvað er glatt sem hið góða
guðsauga? kemur úr suðri
harri hárrar kerru,
harðar líkn og jarðar.
Gleðileg jól nær og fjær
í anda mannúðar
og miskunnsemi!
*
|