Endurfæðing sólar á myrkum
og skemmstum hringferli:
vetrarsólhvörf þennan
sólarhringinn og streymi
í sál og sinni; draumnætur...
Óskandi að hamfarir
náttúrunnar á Norðurhjara,
séu loks að ganga niður,
og nýtt jólatungl annan dag
jóla, boði góða tíð næstu
dægrin og vikurnar.
Megi sár reynsla bænda og
búaliðs, skapa löngu tímabær
straumhvörf í samfélagsþróun,
gildismati og forgangsröðun
fjármuna til almannaheilla.
Strangt lærdómsferli þarf nú
að taka við hjá ráðamönnum
--raunar þjóðinni allri--,
og þarf að standa við stóru
orðin um uppbyggingu innviða.
Eða hvað?
Það er sannarlega ekki
fyrirhafnarlaust að vera til
í þessum hverfula heimi, eða
eins og eðalmálarinn með sína
næmu skynjun á náttúru Íslands,
Jóhannes Sveinsson Kjarval,
(1885-1972), orðaði það:
Það er heilmikið fyrirtæki
að vera manneskja.
*
|