Vorið hér í norðrinu
hefur verið óvenju skírt
og veðurfegurð mikil.
Og að vori fyrir hundrað
árum fæddist öðlingur
mikill við þetta ysta haf,
Jóhann S. Hannesson,
skólamaður, málvísindamaður,
skáld og orðabókarritstjóri,
nánar tiltekið á Siglufirði
þann 10. apríl 1919.
Jóhann hét raunar í höfuð
frænda síns, góðskáldsins
frá Laxamýri og eins fyrsta
nútímaskáldsins, Jóhanns
Sigurjónssonar, sem lést
örfáum mánuðum eftir fæðingu
hans; S-ið í millinafninu er
Sigurjónsson, fullt nafn var
Jóhann Sigurjónsson Hannesson.
En svo mikil var ást móður hans
á skáldinu, systursyni sínum,
að hún vildi að yngsta
barnið í stórum barnahópi,
bæri fullt nafn skáldsins
um aldur og ævi. Síðar
gjarnan nefndur Jóhann S.
af vinum og vandamönnum.
Jóhann heitinn var tengdafaðir
og afi aðstandenda Skuggsjár;
hans er ávallt sárt saknað.
Hann var glaðvær og glettinn
eins og margar limrur hans
bera vott um en raunsær
á menn og málefni og
margan breyskleikann
í mannlegu eðli og æði.
Hann vildi veg okkar sem
mestan en þó fyrst og síðast
að hafa mannkosti í heiðri
og vera drengur góður.
Þessi mæti drengur lést
langt fyrir aldur fram,
eftir drjúgt ævistarf og
ævigöngu í deiglu dýpstu
gleði og dýpstu sorga,
aðeins 64ra ára að aldri.
Jóhann leyndi á sér
um margar andlegar
gáfur sínar--var dulur
og forspár--og flíkaði
þeim ekki en sagði frá
einstaka draumum.
Hann hafði stundað nám
við Berkeley háskóla í
San Francisco ásamt konu
sinni, Lucy Winston Hill,
en skólinn hefur lengi verið
framsækinn og ein helsta
miðstöð draumfræða í heiminum.
Stutt varð á milli samlyndra
hjóna en Winston lést
rúmum 3 árum eftir fráfall
Jóhanns, 66 ára gömul.
Fyrir utan fósturjörðina,
elskaði Jóhann Skotland
öðrum löndum fremur
og átti þangað ýmsar ferðir
með Winston til að heimsækja
frændgarð þeirra þar og skoða sig
um í þessu fegursta landi heims,
(ef marka má kannanir
undanfarin ár, s.s hjá
Reader´s Digest).
Þegar við vorum að velja
búsetu í Skotlandi tæpu ári
eftir andlát Jóhanns, dreymdi
forstjóra Skuggsjár Jóhann
á stað sem hún var búin
að gefa frá sér sem dvalarstað
í skosku hálöndunum þar
sem staðurinn reyndist svo
langt frá Stirling háskóla
hvar hún hugðist stunda
nám í sálfræði og sálmálvísindum
næstu árin og búa í Skotlandi
með afabörnunum tveim,
Jóhanni Tómasi og Ingibjörgu Birtu.
Jóhanni hafði verið kunnugt
um þessar fyrirætlanir og fylgst
með þeim áður en hann lést.
(Algengt var að tala saman
á ensku um þessi plön sem
og annað dagsdaglega).
Nóttina áður en Björg
ætlaði að afþakka boðið
um húsnæði á þessu svæði,
dreymdi hana Jóhann á
gangi með skosku alpahúfuna
sína og göngustafinn upp í
fjallshlíð hvar Jóhann staðnæmdist
og benti á húsþyrpingu sem
blasti við þar neðar,
sneri sér að henni og sagði:
An excellent choice, Björg,
an excellent choice!
Farið var að þessu draumráði
og leiðsögn Jóhanns með
það sama næsta dag...
Og þrátt fyrir vegalengdir og annað,
valið að taka húsnæðið þarna
í syðsta jaðri hálandanna,
dásamlegan stað í Balquhidder
hvar litla fjölskyldan undi hag
sínum vel á slóðum skosku
þjóðhetjunnar og ættar-
höfðingjans Rob Roy MacGregor.
Þetta val á búsetu reyndist
sannarlega an excellent choice!
Fjallshlíðin fyrir ofan húsið
reyndist líta út alveg eins og
í draumsýninni frá Jóhanni!
Svona var hann magnaður,
þessa heims og annars.
Ljóð liðinna daga kemur
í hugann nú þegar við
minnumst okkar hjartfólgna
tengdaföður og afa og við
birtum hér ljóð hans um vorið;
landslag og umgjörð
gætu bæði minnt á heima-
hagana á Siglufirði en allt
eins á skosku hálöndin:
Skriðan við rætur fjallsins
man leysingjar ótal vora.
Mosinn stendur þar föstum
fótum á skorðuðum steinum.
Vor eftir vor taka kátir lækir
á sprett niður gilið
splundrast í glitrandi dropa.
Mosinn grænkar, og grjótið
heldur sér dauðahaldi
í minningu hausts og vetrar.
*
|