Nýtt ár 2019 er runnið upp.
Óskandi að það verði árið
sem mannkynið læri þá
fornu lexíu að leita þarf
samræmis og jafnvægis
og vinna saman í anda
gæsku og sáttar en ekki
í anda þeirrar helstefnu
sem er að útrýma lífi
dýra, plantna og manna,
og heilum vistsvæðum
menningar og tungna.
Nú er talið að um 6-7
þúsund tungumál
fyrirfinnist í heiminum.
Spáð er að þeim gæti
hæglega fækkað um 97%
á næstu 100 árum ef svo
heldur fram sem horfir.
Nýja árið er ár tungnanna.
En falstungur eru því miður
raddir daganna og
eitlharðir naglar
með steinhjörtu ráða
lögum og lofum...
Ef mannkynið á að lifa
af þá helstefnu sem
nú ríkir og hefur eytt
yfir 70% margra lífsforma
á plánetunni á aðeins
örfáum áratugum,
þarf að verða algjör
viðsnúningur í viðhorfum
til mennsku og réttinda
alls lífs til þess að anda
og vera til undir himninum.
Aðlögunarhæfni, visku og
sveigjanleika er þörf
til þess að snúa ofríki og
ógnarstjórn falshuga við.
Í Bókinni um Veginn, Dao de Jing,
öndvegisriti Daóismans,
kvað Gamla barnið,
hinn aldni meistari Lao tse,
um leiðina og ferlið sem
hægt væri að stika og fara
til þess að lifa af í heimi
hörðum og lifa saman
í gæsku, sátt og samlyndi.
En þessi mikli kínverski
meistari ritaði speki sína
á miklum umrósturstímum
í hinu víðfema landi Kína
á 4.öld fyrir Kristsburð.
Í Dao de Jing segir svo
um mátt hins veika:
Hið mjúka vinnur bug
á hinu harða,
hið veika á hinu sterka.
Þetta vita allir,
en enginn breytir samkvæmt því.
Megi okkur auðnast
að fylgja visku hjartans
og dreyma betra líf
öllum til heilla og
lifa í jafnvægu flæði
á plánetunni Jörð
á nýju ári 2019.
*
|