Í órofa hringrás tímans
rís nýtt ár við ysta haf.
Við haf þar sem plast
og annar úrgangur
ógnar lífsskilyrðum
manna, dýra og plantna.
Tími til að vakna og
taka til hendi, hreinsa
lífríkið og stuðla að auknu
heilbrigði plánetunnar.
Loftgæði fara minnkandi;
á þessu má ráða bót,
s.s. með aukinni meðvitund
landans um skaðann
af flugeldamengun:
styrkur svifryks mældist
t.a.m. 90 sinnum meiri í
Kópavogi á nýársnótt en
á venjulegum deg!
Dæmi um manngerðar
hamfarir og alls óþarfar.
Mörg undanfarin ár
hefur um helmingur alls
plastúrgangs heimsins
verið sendur til Kína -
þetta er sem sé fyrir
utan það sem sturtað
er í heimshöfin...
Á árinu 2016, endurunnu
Kínverjar um 7.3 milljónir
tonna plasts og umbreyttu
í seljanlegar vörur.
Nú á nýju ári eru þeir
að setja bann við þessum
óheyrilega innflutningi.
Til verndunar heimaslóða.
Með þvi að draga verulega
úr plastnotkun og endurvinna,
er stórt skref stigið í rétta átt.
Hér á landi erum við á réttri leið.
En betur má ef duga skal.
Nátttúran gefur andsvar sitt:
ljóst er að það hægir á
snúningi Jarðar og í
kjölfarið má vænta fleiri
og stærri jarðskjálfta.
Vísindamenn við háskólana
í Colorado og Montana,
benda á að snúningurinn
hægi á sér um örfáar
millisekúndur á dag yfir
visst tímabil en magnist
síðan upp aftur önnur ár.
Þetta veldur breytingum
á möttli Jarðar og getur
af sér stóra skjálfta.
En mörgu er þó enn ósvarað
varðandi þessar dularfullu
breytingar og skjálftavirkni.
Hér á landi er 100 ára
fullveldi fagnað árið 2018.
En höfum við gengið til góðs?
Það þarf líka að hreinsa
og græða mannheim,
vinna að upprætingu okurs,
draga úr þrúgandi einsleitni,
vinna gegn einhliða upptöku
eigna í krafti peningavalds
sem engu eirir og smyr yfir
sín mistök eins og ekkert sé.
Hagstjórn bókstafshyggju-
valdhafa í tilraunaskyni í
hartnær fjóra áratugi, hefur
aukið á fátækt og ójöfnuð.
Þetta reddast ekki si svona.
Snautlegt til afspurnar
að það eina sem virkilega
hefur verið hlúð að þessa
áratugi úr genamenginu
sem við erfðum frá forfeðrum
vorum, Víkingum og Keltum,
sé það offors að gera
strandhögg og ástunda
gripdeildir, og hneppa fólk
í þrældóm vegna skulda.
Tíminn hefur endurnýjað sig:
tími til að meta og endurmeta
og blása til nýrrar sóknar.
Vinna með Náttúrunni og að
endurbættum samfélagssáttmála
í anda mannúðar og kærleika.
Skapa lífvænleg skilyrði fyrir
allt sem lífsanda dregur.
Tími til að dreyma betri Jörð!
Seint gleymist sólarkoma
eftir svartasta skammdegi
gulir eldar
við efstu fjöll!
(Hannes Pétursson;
Fyrir kvölddyrum, 1993).
*
|